„Sorglega lélegt svar“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert

„Ég brast næstum því í grát af því að þetta var svo sorglega lélegt svar,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er hún brást við svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn hennar um bætur almannatrygginga.

Inga talaði á Alþingi undir liðnum óundirbúinn fyrirspurnatími um 69. grein laga um almannatryggingar þar sem fram kemur að bætur almannatrygginga skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Hún spurði hvort ríkisstjórnin hafi verið að fylgja þessari grein, þar sem kemur fram að bæturnar hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Bjarni sagði að aðstæður geti komið upp í landinu þar sem verðlag hækkar umfram laun og nefndi að þeir sem eru á bótum almannatrygginga hafi ákveðna fallhlíf við slíkar aðstæður. Þeir hafi á sínum tíma fengið verðbólguhækkun á bæturnar á meðan laun í landinu voru að lækka. Hann nefndi einnig þá 2,9 milljarða aukningu framlaga til öryrkja sem er fyrirhuguð samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eins og staðan er núna og sagði að samanlagt muni bæturnar til öryrkja hækka um 5,8%, langt umfram verðlag.

Inga Sæland sagði þetta svar „sorglega lélegt“ og að ekki sé hægt að blanda þessu tvennu saman. 2,9 milljarðarnir fari ekki í beina hækkun á kjörum öryrkja. „Staðreyndin er þessi að það er verið að leiðrétta kjör öryrkja ranglega.“ Í framhaldinu spurði hún ráðherra um hversu margir tugir þúsunda Íslendinga fái útborguð laun undir 250 þúsund krónum á mánuði.

Bjarni benti á nýlegar tölur Hagstofu Íslands þar sem fram kom að um 1% launþega séu í fullu starfi með 300 þúsund krónur á mánuði eða minna.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert