Svindlarar herja á ungmennafélögin

Stjórn UMFÍ hefur varað aðildarfélög sín við svikapóstum.
Stjórn UMFÍ hefur varað aðildarfélög sín við svikapóstum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) hefur sent út tölvubréf til sambandsaðila og aðildarfélaga innan ungmennafélagshreyfingarinnar til að vara við svikapóstum. Reynt er að véla gjaldkera til að leggja inn fjárhæðir á erlenda reikninga.

Tókst það í að minnsta kosti einu tilviki þegar gjaldkeri deildar ungmennafélags lagði 700 þúsund kr. inn á slíkan reikning. Fyrr á árinu tókst netsvikurum að ná fjármunum út úr tveimur íþróttafélögum, 500 þúsund kr. í öðru tilvikinu. UMFÍ telur að nú sé ný svikahrina hafin.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, að þetta séu útpæld svik. Glæpamennirnir hafi undirbúið sig vel. Þeir viti nöfn gjaldkera og formanna deilda og félaga. Noti nöfnin þegar þeir sendi bréf til gjaldkera og láti það líta út sem beiðni frá formanni eða framkvæmdastjóra viðkomandi félags eða deildar. Gjaldkerinn er beðinn um að millifæra fjárhæð á erlendan reikning og það þurfi að gerast strax.

Auður Inga segir að ungmennafélögin liggi vel við höggi. Fólkið sé yfirleitt að sinna stjórnunarstörfum í sjálfboðavinnu og sé því ekki með sömu fastmótuðu verkferlana og fyrirtæki með starfsfólk á skrifstofum.

Því miður sé sjaldnast hægt að ná þessum fjármunum til baka þótt strax sé brugðist við með því að hafa samband við viðkomandi banka og lögreglu. Þeir séu glataðir. Beinir UMFÍ þeim tilmælum til forystumanna félaganna að breyta verklagi. Besta leiðin er að gjaldkeri, fjármálastjóri eða hver sá sem fær póst í nafni formanns eða framkvæmdastjóra hringi í viðkomandi og kanni hvort hann hafi sent skeytið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert