Tæknin þjóni en stingi ekki af

Þrátt fyrir fjölda nýrra ógna sem þyrfti að huga að …
Þrátt fyrir fjölda nýrra ógna sem þyrfti að huga að sagði Katrín þó að ekki mætti gleyma þeirri ógn sem Íslendingar hafi hvað mesta reynsu af: náttúruvá. mbl.is/​Hari

Svarið við þeim ógnum sem steðja að alþjóðasamstarfi, þar sem reynt er að grafa undan því, er meira samstarf fremur en minna, og mikilvægt er að einblína ekki aðeins á hefðbundnar hernaðarógnir þegar kemur að þjóðaröryggi.

Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra þar sem hún setti málþing um fullveldi og þjóðaröryggi í Silfurbergi í Hörpu.

Katrín sagði breiða samstöðu hafa verið meðal þingmanna um útvíkkun öryggishugtaksins í nýrri þjóðaröryggisstefnu, þrátt fyrir pólitískan ágreining um mál eins og aðild að hernaðarbandalögum, enda hlyti grunnskylda stjórnvalda að vera að tryggja öryggi borgaranna.

Með aukinni tækniþróun sagði hún mikilvægt að tryggja stoðir fullveldisins með upplýstri umræðu og að tryggja að tæknin stingi ekki af, heldur þjóni samfélaginu. Netöryggi væri eitt viðamesta viðfangsefni komandi tíma, enda gætu netþrjótar lamað heilu samfélögin með árásum, svo sem á gagnagrunna heilbrigðiskerfisins.

Ógnir vegna náttúruvár ekki að fara neitt

Þrátt fyrir fjölda nýrra ógna sem þyrfti að huga að sagði Katrín þó að ekki mætti gleyma þeirri ógn sem Íslendingar hafi hvað mesta reynslu af: náttúruvá. Hún sagði þær ógnir ekki vera að fara neitt og að mikilvægt væri að bregðast við með réttum hætti á hverjum tíma.

Katrín sagði niðurstöður nýlegrar könnunar sýna að flestir Íslendingar trúðu á loftslagsbreytingar af mannavöldum, og skæru sig úr í þeim efnum, en að samtímis hefðu þeir ekki af þeim áhyggjur. Katrín sagði þetta viðhorf dæmigert fyrir Íslendinga með „Þetta reddast“-hugarfarið, en að engu að síður væri mikilvægt að vera fær um að bregðast hratt við hinu fyrirsjáanlega, sem og hinu ófyrirsjáanlega.

Mannréttindayfirlýsing afar framsækin

Katrín sagði mörg tímamót eiga sér stað um þessar mundir, samhliða fullveldi Íslands, eins og að 100 ár væru frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar, sem hefði meðal annars haft í för með sér byltingu í alþjóðasamskiptum, meðal annars með stofnun Sameinuðu þjóðanna. Þá væru 70 ár síðan síðan Mannréttindayfirlýsing SÞ hefði verið gefin út, sem hafi þótt framsækin á sínum tíma. Þó sagðist Katrín telja að í dag gæti verið enn flóknara fyrir ríki að koma sér saman um algild mannréttindi með þessum hætti.

Þá sagði hún mikilvægt að tryggja aukið alþjóðlegt samstarf samhliða þeim tilraunum sem gerðar hafa verið til þess að draga úr því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert