Vatn komst í loftræstikerfið

Vatnslekinn hefur ekki áhrif á skólastarf á starfsdegi.
Vatnslekinn hefur ekki áhrif á skólastarf á starfsdegi. mbl.is/​Hari

Vatn sem flæddi úr brunni undir Fossvogsskóla olli talsverðu tjóni í kjallara í Austurhluta byggingarinnar en hefur ekki áhrif á skólastarf. Þetta segir Árni Freyr Sigurlaugsson, aðstoðarskólastjóri í Fossvogsskóla, í samtali við mbl.is.

„Skólinn er byggður á mýri og því fylgja vandamál,“ segir Árni Freyr. Grunnvatn er í brunni undir skólanum, þaðan sem tvær dælur dæla vatni í annan brunn á skólalóðinni og aðrar tvær dælur dæla vatninu þaðan burt. Bilun í dælunum olli lekanum inn í skólann.

Kjallari, sem er um 150 fermetrar að stærð, að sögn Árna Freys, fór allur á flot og var vatnið um 50 til 60 sentimetra djúpt.

„Loftræstikerfið er þarna niðri, og stjórnstöðin, og það fór vatn þangað inn. Nú er verið að þurrka það,“ segir Árni Freyr. Skemmdir hafi ekki verið metnar, en hafi loftræstikerfið orðið fyrir skemmdum gæti tjónið hlaupið á hundruðum þúsunda króna.

Slökkvilið kom á staðinn og dældi vatninu burt í gærkvöldi, og þá tóku rafvirkjar og píparar við sem komu dælunum aftur í gang.

Starfsdagur er í skólanum í dag og hefur lekinn ekki áhrif á starfsemi. Þá eru börn í Neðstalandi, frístundaheimili skólans, sem er í vesturhluta byggingarinnar og ættu börnin því ekki að verða vör við neitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert