Aðeins Sigga stóð uppi

Halldór Svavarsson.
Halldór Svavarsson. mbl.is/​Hari
Sumarið 1929 lögðu ellefu menn upp í mikla óvissuför á mótorbátnum Gottu VE 108 til Grænlands í því augnamiði að handsama nokkur sauðnaut og flytja þau heim til Íslands. Eftir mikil ævintýri á sjó, ís og landi sneri áhöfnin aftur tæpum tveimur mánuðum síðar með sjö sauðnautskálfa. Synd væri þó að segja að þeim hafi farnast vel á Íslandi og rann þessi tilraun til sauðnautaræktunar fljótt út í sandinn, svo sem fram kemur í nýrri bók Halldórs Svavarssonar, Grænlandsför Gottu. 

Þau voru sjö saman, dauðskelkuð og umkomulaus og mynduðu eðli sínu samkvæmt varnarvegg enda óvön því að vera til sýnis á almannafæri líkt og þessa síðsumardaga á Austurvelli árið 1929. Það voru ekki bara Reykvíkingar sem fjölmenntu á sýninguna, fólk dreif víða að, enda höfðu Íslendingar ekki séð sauðnaut áður.

Nýbúar þessir höfðu yfirgefið heimahaga sína á Grænlandi, þar sem áhöfnin á mótorbátnum Gottu VE 108 handsamaði þá skömmu áður með mikilli fyrirhöfn. Tilgangur ferðarinnar sem varð mikil svaðilför, var að flytja sauðnaut til Íslands og töldu þeir sem að henni stóðu að þau gætu orðið til mikilla hagsbóta fyrir íslenskan landbúnað. Frá þessu óvenjulega ævintýri er hermt í nýrri bók, Grænlandsför Gottu, eftir Halldór Svavarsson sem kom út á dögunum.

Man eftir Gottu

„Ég er frá Vestmannaeyjum og man eftir Gottu sem strákur og að hafa heyrt talað um þessa frægu Grænlandsför hennar.“ segir Halldór. „Ég vissi samt lítið um hvað málið snerist fyrr en ég fór fyrir nokkrum árum að fletta gömlu Bliki, sem er ársrit Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja. Þar var lauslega sagt frá þessu ævintýri og það kveikti í mér.“ 

Þar sem Halldór er grúskari af Guðs náð fór hann að leita að heimildum en komst fljótt að raun um að ekki er sérlega margt til um ferðina. „Fátt hefur verið skrifað um þessa ferð gegnum tíðina sem helgast fyrst og fremst af tvennu. Annars vegar vegna þess að ekki ríkti einhugur um þessa ferð á sínum tíma og margir töldu hana feigðarflan og hins vegar fyrir þær sakir að það hefur löngum verið eðli íslenskra sjómanna að gera lítið úr stórræðum sem þeir lenda í,“ segir hann.“

Akipshöfnin á Gottu áður en lagt var upp í ferðina …
Akipshöfnin á Gottu áður en lagt var upp í ferðina frægu til Grænlands. Vigfús Sigurðsson er lengst til vinstri í efri röð og Ársæll Árnason og Kristján Kristjánsson skipstjóri fyrir miðri efri röð.

Forsaga málsins er sú, að því er fram kemur í bók Halldórs, að Vigfús Sigurðsson landpóstur með meiru hafði farið til Grænlands og heillast þar af sauðnautunum sem hann taldi geta átt góð heimkynni í fjöllum norðanlands og á Vestfjarðakjálkanum. Hreif hann menn með sér og árið 1928 var stofnað í Reykjavík veiðifélagið Eiríkur rauði h/f sem hafði það markmið að leigja eða kaupa skip sem hæft væri til Grænlandsferðar í þeim tilgangi að veiða þar sauðnaut sem síðan yrðu flutt til Íslands og yrðu fyrsti vísir að sauðnautaræktun.

Vilhjálmur studdi áformin

Vigfús var aðalhvatamaðurinn að stofnun félagsins en tók þó ekki sæti í stjórn þess. Þar sátu Þorsteinn Þorsteinsson kaupmaður, Ársæll Árnason bókbindari og bóksali og Benedikt Sveinsson alþingismaður. Framkvæmdastjóri var ráðinn Þorsteinn Jónsson athafnamaður. Meðal þeirra sem studdu áform félagsins var Vilhjálmur Stefánsson landkönnuður og munaði um minna. Þegar Alþingi samþykkti að heimila innflutning á sauðnautum vorið 1929 var til dæmis vísað til álits Vilhjálms.

Alþingi samþykkti 20.000 króna framlag til Eiríks rauða h/f gegn því að ríkið eignaðist sauðnautin ef vel til tækist. Einnig var samþykkt að greiða féð ekki út fyrr en sauðnautin væru komin til Íslands, þannig að öll áhætta kom í hlut leiðangursmanna og félagsins.

„Þessir menn hafa augljóslega haft mikla trú á verkefninu og brunnið fyrir það en þeir fóru tekjulausir frá fjölskyldum sínum upp á von og óvon. Íslendingar höfðu ekki siglt til Grænlands í margar aldir og engin leið var að vita hversu langan tíma ferðin myndi taka; fyrirfram gerðu leiðangursmenn ráð fyrir því að þurfa jafnvel að hafa vetursetu á Grænlandi,“ segir Halldór. 

Umdeilt ferðalag

Fjölmenni kom saman á Austurvelli til að skoða sauðnautin.
Fjölmenni kom saman á Austurvelli til að skoða sauðnautin. Ljósmynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur
Hann telur þetta lýsandi fyrir andann í samfélaginu á þessum tíma. „Ungmennafélagsandinn var ríkjandi og rétt rúmum áratug eftir að Ísland varð fullvalda ríki létu menn ekkert stöðva sig, allra síst Dani. Íslendingum var í mun að sýna úr hverju þeir væru gerðir.“ 

Hafandi sagt það þá var Grænlandsför Gottu umdeild í samfélaginu og ýmsir töldu hana glapræði sem ekki ætti að styrkja með opinberu fé. Enginn í áhöfninni hafði reynslu af siglingu í ís og Vigfús Sigurðsson, sem ekki var sjómaður, var sá eini sem komið hafði til Grænlands og séð sauðnaut.

Leiðangursmenn þurftu á sterkbyggðu og vönduðu skipi að halda og bauðst þeim fiskiskipið Gotta úr Vestmannaeyjum, sem var 35 brúttólestir að stærð, með nýlegri 65 ha. Saffle, sænskri glóðarhaus-vél. Eftir allnokkurn undirbúning, meðal annars þurfti að setja hlíf á skipið til að verjast hafís, lét Gotta úr höfn 4. júlí 1929. Skipstjóri var Kristján Kristjánsson, rúmlega þrítugur, alinn upp í Arnarfirði en búsettur í Reykjavík, „gætinn maður og traustur“, að því er fram kemur í bókinni. Af öðrum leiðangursmönnum má nefna Ársæl Árnason, stjórnarmann í Eiríki rauða h/f og Vigfús Sigurðsson, sem mesta ábyrgð bar á ævintýrinu. 

Klemmdist milli ísjaka

Snemma kom í ljós að fjarskiptabúnaður Gottu virkaði ekki og hafði áhöfnin því enga möguleika á að láta vita af sér. Heima beið fólk því milli vonar og ótta. Erfitt var að nálgast austurströnd Grænlands vegna hafíss og þurfti skipstjórinn að sæta lagi; finna geil og vona það besta. Eftir að hafa orðið nokkuð ágengt klemmdist Gotta milli ísjaka og varð eins og í skrúfstykki, þannig að skipverjum leist ekki á blikuna. Um tíma lagðist báturinn á hliðina á ísnum og var þá öll áhöfnin komin frá borði, stríðvopnuð til að verjast hvítabjörnum á ísbreiðunni. Gotta losnaði þó ólöskuð úr prísundinni á endanum og hægt var að halda ferðinni áfram. Á þessu öllu eru dramatískar lýsingar í bókinni, sumir skipverja lentu til að mynda um stund í jökulköldum sjónum.

Enda þótt Gotta væri laus var ekki þar með sagt að leiðin væri greið; þvert á móti var skipið innlyksa í lóni sem myndast hafði innan um ísinn og fann ekki glufu til að sigla í land enda þótt Grænland blasti við úr fjarska.

Halldór segir augljóst að Gotta hafi verið komin í grafalvarlega stöðu þegar áhöfnin kom auga á annað skip, Heimaland 1, sem var norskt skip með breskum vísindamönnum. „Hefðu þeir ekki hitt á skipið hefðu þeir sennilega verið fastir á ísnum og ekki komist lengra. Heimaland 1 var stærra skip en Gotta, gert fyrir íshafssiglingar, og með betri útbúnað, að ekki sé talað um reynslu áhafnarinnar. Ljóst má vera að áhöfnin á Gottu kunni lítið sem ekkert til verka og þegar á reyndi var hún vanbúin til siglinga á þessum slóðum, þótt hún hefði hugmyndir um annað. Þess vegna kom sér vel að geta siglt í kjölfar Heimalands 1 sem leið lá til Grænlands,“ segir Halldór.

Skutu bara og skutu

Það átti við um fleira; þannig hafði áhöfnin enga reynslu af því að skjóta stór dýr, eins og ísbirni og sauðnaut, aðeins sel og rjúpu og voru byssurnar í samræmi við það. „Menn skutu bara og skutu og murrkuðu þannig lífið úr björnunum. Þetta var hræðileg veiðimennska. Á móti kemur að áhöfnin hafði alist upp við svakalegar sögur af hvítabjörnum og vissi að þeir væru stórhættulegir. Fyrir vikið væri ekki á annað hættandi en að fella þá,“ segir Halldór en alls felldi áhöfnin ellefu ísbirni í leiðangrinum.

Einni bjarnarrimmunni, þegar áhöfnin kom auga á birnu með tvo húna á ísnum, lýsir Halldór með svofelldum orðum í bók sinni:

„Eins og fyrr voru vopnin hlaðin og birnan skotin þegar nærri dýrunum var komið. Húnarnir urðu ráðvilltir og bjarglausir eftir að móðir þeirra var drepin, þeir svömluðu í kringum hana og biðu einhvers sem þeir vissu ekki hvað var. Húnarnir reyndust skipverjum á Gottu auðveld bráð og þarna náðu þeir þremur hvítabjörnum í einni atlögu. Þegar gert var að dýrunum kom í ljós að þau voru nýbúin að fá fylli sína, maginn var fullur af ómeltum sel. Sérstaka athygli vakti að birnan hafði rifið skinnið utan af selnum og étið það sjálf en húnarnir höfðu eingöngu fengið kjöt. Líklega er eðlið svipað hjá öllum mæðrum, þær flysja og tilreiða fyrir afkvæmi sín.“

Greinina í heild sinni má lesa í sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út í gær.  

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert