Heiða stendur heilshugar með Áslaugu

„Klassísk Metoo-saga,“ segir Heiða Björg, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.
„Klassísk Metoo-saga,“ segir Heiða Björg, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir sögu Áslaugar Thelmu Einarsdóttur í kringum uppsögn hennar hjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR) vera „klassíska #metoo-sögu" og finnst hafa verið gert lítið úr hennar upplifun. Þá finnst henni sá hluti skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkur sem fjallar um opinbera smánun vera „svolítið aftan úr fornöld“.

Þetta er á meðal þess sem kom fram í umræðuþættinum Þingvellir á K100 í morgun, þar sem Heiða og Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, ræddu við Björtu Ólafsdóttur þáttastjórnanda um ýmis málefni, þ.á.m. áðurnefnda úttekt innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á vinnustaðarmenningu innan OR.

Vantar kærleika frá Orkuveitunni

„Ef maður horfir á þetta algjörlega út frá því sem maður hefur heyrt í fjölmiðlum, [...], þá finnst mér þetta bara nokkuð klassísk #meToo-saga. [Áslaug Thelma] upplifir að hún er sögð hafa „blikkað“ sig upp í launum og hún fær tölvupósta sem henni finnst truflandi. Hún upplifir að það sé verið að áreita hana, ekki líkamlega, en að það sé verið að áreita hana í starfi,“ sagði Heiða í morgun.

Hún bætti við að henni þættu viðbrögð Bjarna Más Júlíussonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Orku Náttúrunnar sem var vikið úr vegna málsins, vera ágæt. 

„Ég stend heilshugar með Áslaugu Thelmu í þessu máli,“ sagði Heiða. Þá bætti hún við að það skorti kærleika frá OR við nálgun málsins.

Undir þetta tók Hildur, sem situr í stjórn OR.

„Mér fannst algjörlega vanta mannlega þáttinn í það hvernig þetta allt var kynnt. Það er auðvitað nægilega mikill skellur fyrir einstakling að fá svona úttekt og niðurstöður í hendurnar, og mér fannst algjörlega vanta mannlegu nálgunina í það.

mbl.is

Bloggað um fréttina