Sit við hlið framtíðar forsetans

„Ég vona ég að ég geti sagt að ég hafi í dag setið við hlið framtíðar forseta Sómalíu,“ sagði Neven Mimica, yfirmaður alþjóðasamvinnu og þróunarmála hjá ESB í beinni útsendingu um Najmo Fiyasko. Hún hefur búið hér í 4 ár og hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum fyrir mannréttindabaráttu sína.

Í útsendingunni, sem Evrópusambandið stóð fyrir á Degi stúlkunnar í haust, ræddi Najmo m.a. um kynfæralimlestingar og þvinguð hjónabönd í heimalandinu. Málefni sem hún hefur vakið athygli á á samfélagsmiðlum á borð við Facebook og Youtube. Að Najmo, sem er tvítug, skuli hafa verið valin til að ræða málin á þessum vettvangi er mikill heiður og sýnir vel hversu mikilvægur boðskapur hennar er en ekki síður hversu vel hún nær að miðla honum frá sér.

Najmo býr með fósturforeldrum sínum í Skipasundi og stundar nám við Fjölbrautarskólann í Ármúla. Hún kom hingað til lands árið 2014 eftir að hafa flúið heimalandið þar sem fyrir henni lá að ganga í hjónaband þegar hún var ellefu ára gömul. Söguna af því sagði hún í samtali við Stöð 2 fyrr á árinu þegar hún flutti erindi á aðalfundi Íslandsdeildar Amnesty. Þar segir hún frá því þegar faðir hennar var myrtur í heimalandinu og í kjölfarið hvernig hún var gefin í hjónaband með frænda sínum. Við tók ferðalag til Evrópu sem alls tók þrjú ár þar sem hún horfði á besta vin sinn drukkna í Miðjarðarhafi og dvaldist í fangelsum og flóttamannabúðum.

Sextíu þúsund fylgjendur

Skömmu eftir að Najmo kom til landsins tók hún upp myndband þar sem hún ræddi um stöðu mála í heimalandinu. Það fór eins og eldur í sinu um internetið og fékk sterk viðbrögð. Á næstu misserum hélt hún áfram að taka upp og deila myndböndum þar réttindamál barna og kvenna voru ofarlega á baugi. En viðbrögðin voru ekki bara jákvæð og Najmo neyddist til að gera hlé á útsendingum sínum vegna hótana sem hún fékk. Í fyrra tók hún þó upp þráðinn að nýju og síðan þá hafa hlutirnir gerst hratt. Fylgjendur hennar á Facebook voru þá fimm þúsund talsins en eru nú orðnir sextíu þúsund.

Þá hefur hún ferðast um heiminn á vegum Sameinuðu Þjóðanna til að vekja athygli á baráttu sinni. Ég hitti hana í vikunni og ræddi við hana um samfélagsmiðlana og lífið á Íslandi. Það er ekki erfitt að sjá af hverju Mimica vonast til að sjá Najmo á vettvangi stjórnmálanna. Hún hefur einstakt lag á að koma fyrir sig orði og hefur náð að yfirstíga mótlæti í lífinu sem ætti ekki að vera á neinn lagt. 

Á dögunum framleiddi Flóttamannastofnun SÞ myndband þar sem fjallað er um Najmo og baráttu hennar fyrir bættu lífi í Afríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert