Úrbætur í farvegi innan OR

Fjallað var um ábendingarnar á sameiginlegum vinnudegi alls starsfólks OR-samstæðunnar.
Fjallað var um ábendingarnar á sameiginlegum vinnudegi alls starsfólks OR-samstæðunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur lagði fram greinargerð á fundi stjórnar OR í dag um farveg ábendinga í úttektarskýrslu innri endurskoðunar, en fjallað var um ábendingarnar á sameiginlegum vinnudegi alls starfsfólks OR-samstæðunnar síðastliðinn fimmtudag.

Að því er segir í tilkynningu frá OR skilaði afrakstur þeirrar vinnu sér í greinargerð Helgu Jónsdóttur. Í sameiginlegri bókun sem stjórn OR lagði fram í dag segir að þó úttektin staðfesti að innan Orkuveitunnar ríki góður starfsandi taki stjórn þær ábendingar sem fram koma mjög alvarlega og heitir því að tryggja að við þeim verði brugðist með viðeigandi hætti.

Þá þakkar stjórn OR innri endurskoðanda, sérfræðingum og Helgu fyrir þær úrbætur sem þegar hafa verið gerðar eða eru komnar í farveg.

Þær ábendingar og umbætur sem Helga gerði grein fyrir á fundi stjórnar snúa að mannauðsmálum, stjórnháttum, jafnréttismálum, ráðningar- og starfslokaferlum, áreitni og einelti, vinnustaðarmenningu, áhættustjórnun og einstökum starfsmannamálum á ábyrgð Orku náttúrunnar.

mbl.is