Hannar pappírsflugvélamódel frá grunni

Eins og sjá má er módelið mjög nákvæm eftirlíking af …
Eins og sjá má er módelið mjög nákvæm eftirlíking af vél Icelandair. Ljósmynd/Aðsend

Edwin Rodríguez frá Kosta-Ríka er mikill áhugamaður um Ísland og hefur lengi dundað sér við að byggja pappírsmódel af flugvélum, byggingum, skipum og fleiru. Í fyrstu prentaði hann út pdf-skjöl af módelum sem hann fann á netinu og setti þau saman sjálfur. Með tímanum hefur hann hins vegar lært að hanna módelin sjálfur og ein afurð hans er stórglæsilegt módel af Heklu Aurora-farþegavél Icelandair, sem hann hefur mikið dálæti á.

Edwin elskar Ísland og segir það ólýsanlega upplifun að hafa …
Edwin elskar Ísland og segir það ólýsanlega upplifun að hafa fengið að heimsækja landið í september. Ljósmynd/Aðsend

Edwin var ekkert lítið spenntur þegar blaðamaður setti sig í samband við hann og vildi heyra söguna á bak við módelið, en hann birti mynd af hönnun sinni á Facebook-síðunni Fróðleiksmolar um flug, fyrir skömmu.

„Ég elska landið ykkar. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að heimsækja Ísland í september síðastliðnum og það var ólýsanleg upplifun. Að sjálfsögðu tók ég Heklu Aurora-módelið mitt með,“ segir hann stoltur í samtali við mbl.is.

Það var draumur Edwin að smíða nákvæma eftirlíkingu af Heklu …
Það var draumur Edwin að smíða nákvæma eftirlíkingu af Heklu Aurora-vélinni. Ljósmynd/Aðsend

„Í fyrstu prentaði ég pdf-skjölin bara beint af netinu, en þá hafði einhver annar séð um að hanna módelin og hlaða þeim inn á netið. Ég sá bara um að setja módelin saman. Með tímanum lærði ég að breyta útliti módelanna aðeins. Fór að endurhanna útlit þeirra og mála öðruvísi en upphaflegu módelin með aðstoð myndvinnsluforritsins Photoshop. Módelin voru því hönnun annarra en útlitið algjörlega mitt.“

Edwin hefur verið mjög iðinn við kolann og í dag hanga 46 mismunandi pappírsmódel úr lofti svefnherbergis hans. Þá heldur hann úti Youtube-rás þar sem hann sýnir byggingu módelanna.

Edwin nostrar við hvert smáatriði í módelsmíðinni.
Edwin nostrar við hvert smáatriði í módelsmíðinni. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend

En hann vildi taka módelsmíðina skrefinu lengra og fór því að fikra sig áfram í að hanna sjálfur frá grunni, sem tókst glimrandi vel. „Þar sem ég elska Ísland og Icelandair er stærsta flugfélag landsins þá hef ég alltaf haft mikinn áhuga á flugfélaginu. Þegar ég sá svo myndband af Heklu Aurora-vélinni í fyrsta skipti þá dreymdi mig um að gera pappírsmódel af henni,“ segir Edwin, en um er að ræða farþegavél af gerðinni Boeing 757 sem máluð er í litum norðurljósanna.

Ljósmynd/Aðsend

„Ég nýtti mér nýja hæfileika mína sem hönnuður og byrjaði að vinna í þrívíddarmódeli af Boeing 757, svo setti ég saman módelið og málaði Aurora-útlitið. Þannig lét ég draum minn rætast.“

Edwin er enn ekki búinn að setja inn samsetningu á Aurora-módelinu á Youtube-rásina en býst við að klára það að næstu dögum. Hér fyrir neðan má hins vegar sjá samsetningu á öðru módeli.

mbl.is