Vöknuðu við reyk í húsinu

mbl.is/Hjörtur

Slökkviliðið í Fjarðabyggð var kallað út um klukkan hálfellefu í gærkvöldi vegna elds í einbýlishúsi við Sæbakka í Neskaupstað, en íbúarnir voru gengnir til náða þegar þeir urðu varir við reyk að sögn Guðmundar H. Sigfússonar, slökkviliðsstjóra Fjarðabyggðar.

Guðmundur segir í samtali við mbl.is að húsráðendur hafi kallað eftir aðstoð slökkviliðsins og reynt að slökkva eldinn sjálfir. Slökkviliðsmenn hafi komið fljótt á staðinn og greiðlega hafi gengið að ráða niðurlögum eldsins.

Rífa þurfti niður vegg og loftklæðningu til þess að komast í glóð. Skemmdir eru talsverðar í eldhúsi og stofu, en eldsupptök virðast í kringum rör frá kamínu sem hefur þó að sögn Guðmundar verið gengið vel frá. Málið er annars til rannsóknar hjá lögreglu.

Farið var með íbúana á sjúkrahús til aðhlynningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert