Finna ekki milljarðana níu

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, segir segir bandalagið ekki kannast …
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, segir segir bandalagið ekki kannast við að framlög ríkisins til öryrkja hafi aukist um 9 milljarða.

Öryrkjabandalag Íslands kannast ekki við að framlög ríkisins til öryrkja hafi aukist um 9 milljarða og segjast menn hjá ÖBÍ klóra sér í hausnum yfir fullyrðingu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra þess efnis í fjárlagaumræðu á Alþingi á mánudag.

„Við alla vega sjáum ekki að hækkunin hafi farið í vasa örorkulífeyrisþega,“ segir Þuríður Harpa Sig­urðardótt­ir formaður ÖBÍ í samtali við mbl.is. Fólk kannist ekki við neinar kjarabætur eða kaupmáttaraukningu sem með nokkrum hætti sé hægt að heimfæra upp á þessa upphæð sem forsætisráðherra hafi nefnt.

„Þannig að við þurfum bara að fá skýringu á hvar þessir peningar eru og í hvað á að verja þeim.“

Í ræðu sinni sagði Katrín ríkisstjórninni vera alvara með því að í fjárlögum eigi sérstaklega að koma til móts við tekjulægri hópa. „Þessari ríkisstjórn er alvara með að byggja hér upp samfélagslega innviði, og þar skipta kjör örorkulífeyrisþega svo sannarlega máli. Þess vegna sjáum við þessa miklu aukningu, 9 milljarða í tvennum fjárlögum miðað við 2. umr. fjárlaga,“ sagði forsætisráðherra.

Verðum að krefjast svara

ÖBÍ bendir á að í föstudagspósti VG hafi birst fullyrðing sem sé efnislega sú sama og kom fram í ræðu Katrínar og hún veki ekki minni furðu hjá bandalaginu. Hjá ÖBÍ séu menn búnir að fara í gegnum fjárlög síðasta árs og núverandi frumvarp og milljarðarnir níu séu enn ófundnir.

Þuríður Harpa segir ÖBÍ því hafa sent fyrirspurnir á forsætis-, fjármála- og félagsmálaráðuneyti og þingflokk VG þar sem óskað er skýringar. Hún segist vonast til að fá svör fljótlega. „Ég held að við verðum bara að krefjast þess að fá svör, þannig að við vitum þá hvað forsætisráðherra er að tala um þegar hún talar um níu milljarða.“

Um dágóða upphæð sé að ræða og því þarfnist orð Katrínar skýringar. „Af því að við sjáum þess engin merki, ekki í fjárlagafrumvarpinu eða neins staðar, að það eigi að hækka örorkulífeyri þannig að fólk fari að hafa það betra.“

Sú 3,6% hækkun sem boðuð sé í frumvarpinu, sé engin hækkun þegar verðbólguspáin er tekin með í dæmið. „Þetta eru heldur engar hækkanir því það er ekki verið að leiðrétta kjör örorkulífeyrisþega á nokkurn hátt. Við sjáum það hvergi og þurfum að fá einhverjar útskýringar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert