Lokað um Kjalarnes, Öræfi og Öxi

Björgunarsveitir munu hjálpa Vegagerðinni að manna lokunarpósta.
Björgunarsveitir munu hjálpa Vegagerðinni að manna lokunarpósta. mbl.is/Eggert

Búið er að loka á umferð um Kjalarnes, Öræfi, Öxi, Fjarðarheiði, Nesjavallaleið, Vestfjarðaleið um Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði og Bíldudalsveg að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir björgunarsveitir alls staðar á landinu vera með viðbúnað í gangi en afar slæmu veðri er spáð fram á aðfaranótt föstudags.

„Björgunarsveitir eru frekar meðvitaðar um þessa spá, enda er hún svolítið afgerandi,“ segir Davíð Már í samtali við mbl.is.  Björgunarsveitir hafa mannað lokunarpósta við Jökulsárlón og Lómagnúp frá því sex síðdegis og til stendur að björgunarsveitir manni vegalokun á nokkrum stöðum til viðbótar.

Davíð Már segir hins vegar ekki hafa komið til þess enn að björgunarsveitir hafi þurft að sinna útköllum.

„Fyrsta alvöruveðrið“

Veður­stof­an hefur gefið út gula viðvör­un fyr­ir stór­an hluta lands­ins og hefur Landsbjörg sett í gang sinn mesta viðbúnað vegna ferðafólks, en nokkur þúsund erlendir ferðamenn eru á landinu. Segir Davíð Már það vera ástæðu þess að viðvörun Safe Travel sé á hæsta stigi, sem ekki sé algengt.  

„Þetta er fyrsta alvöruveðrið, þannig að það gæti komið einhverjum að óvörum,“ segir hann. „Þetta efsta stig þýðir að menn leggja sig allan fram um að koma skilaboðunum áleiðis.“ 

Aðvörun hefur því verið sett inn á Safe Travel-vefinn og staðbundin SMS-skilaboð hafa verið send út. Þá er aðvörun einnig að finna á um 100 upplýsingaskjám sem finna má á fjölförnum ferðamannastöðum hringinn í kringum landið og eins hafa ferðaþjónustuaðilar verið beðnir um að hengja upp aðvaranir og upplýsa gesti sína um stöðuna.

„Markmiðið er að allir séu vel upplýstir og vonandi dugar það svo það reyni ekki á að kalla þurfi út björgunarsveitir í kvöld og á morgun,“ segir Davíð Már.

Vegagerðin gerir ráð fyrir að þjóðveg­ur eitt verði lokaður frá klukk­an tíu í kvöld til ellefu á morgun frá Hvols­velli að Kirkju­bæj­arklaustri, en lokað verður frá klukk­an sex milli Kirkju­bæj­arklausturs og Jök­uls­ár­lóns.

Veg­ur um Mý­vatns- og Möðru­dals­ör­æfi verður op­inn fram á kvöld, en ekki er ljóst hver staðan verður á morg­un. Leiðin verður lík­lega ófær eft­ir að þjón­ustu­tíma lýk­ur klukk­an hálfátta ef spár ganga eft­ir að sögn Vega­gerðar­inn­ar.

Bú­ist er við því að veg­ur­inn um Öxna­dals­heiði verður lokaður strax í fyrra­málið. Einnig er gert ráð fyr­ir að til lok­ana komi í Hófa­sk­arði á morg­un.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert