Vísar leka úr forsætisnefnd á bug

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. mbl.is/​Hari

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, vísar því á bug að leki hafi orðið í forsætisnefnd Alþingis vegna tilkynningar í tengslum við erindi Björns Levís Gunnarssonar Pírata um akstursgreiðslur þingmanna.

Fram kom í tilkynningunni að forsætisnefnd hafi rætt það á fundi sínum að Björn Leví yrði mögulega látinn sæta ábyrgð samkvæmt siðareglum fyrir að hafa sent erindi til nefndarinnar um akstursgreiðslur til þingmanna. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, kannaðist ekki við það í samtali við mbl.is í morgun að þetta hafi verið rætt og sagði að alvarlegur leki hafi orðið úr nefndinni því umræða í viðkvæmum málum í forsætisnefnd sé trúnaðarmál.

Þórhildur Sunna bendir á að sömu reglur gildi um trúnað í forsætisnefnd og um fastanefndir Alþingis. „Forseti verður þá að gera upp við sig hvort um leka eða lygi sé að ræða frá okkur,“ segir hún og nefnir að reglur fastanefnda segi til um að ekki megi hafa orðrétt eftir fólki og vísa í einstaklinga vegna þess sem kemur fram á fundum. Aftur á móti megi taka fram opinberlega hvaða sjónarmið koma fram á fundum.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

„Við tókum fram í fundarstjórn forseta að Birni hefði verið hótað afleiðingum gjörða sinna og að hann yrði sjálfur mögulega kærður fyrir brot á siðareglum fyrir að leggja inn þetta erindi,“ útskýrir hún og segir þetta vera brot á 16. grein siðareglna alþingismanna þar sem fram kemur að þeir sem senda inn rökstutt erindi um brot á siðareglum megi ekki sæta afleiðingum fyrir það. „Mér finnst það mjög alvarlegt að á fundi forsætisnefndar sé það látið óáreitt tal um að mögulega brjóta siðareglur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert