Ekki jafn „hot“ og áður

Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra Framsóknarflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra Framsóknarflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingmenn Miðflokksins fara hörðum orðum um kvenkyns stjórnmálamenn á upptöku sem Stundin hefur undir höndum og gantast með að stjórnmálakona hljóti að „hrynja niður“ prófkjörslista vegna þess að hún sé ekki jafn „hot“ og áður. 

Þingmenn flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir ræddu málin á Klaustri bar 20. nóvember ásamt Karli Gauta Hjaltasyni og Ólafi Ísleifssyni, þingmönnum Flokks fólksins. Orðaskiptin voru mjög hávær, áttu sér stað í vitna viðurvist og náðust að hluta á upptöku, segir í frétt Stundarinnar en bæði Stundin og DV eru með upptökurnar af samræðum þingmannanna. Þar er meðal annars rætt um útlit stjórnmálakvenna, gáfnafar og andlega eiginleika.

Á einum tímapunkti töluðu þingmennirnir um hvernig næsta prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í tilteknu kjördæmi geti farið.

Gunnar Bragi: „Ég held reyndar að [...] geti verið helvíti öflug. Hún er helvíti sæt stelpa.“

Sigmunur Davíð: „Þetta er svona móment, ung kona, ungt fólk í Sjálfstæðisflokknum, lyftum henni.“

Bergþór: „Nú ætla ég að segja eitt sem er náttúrulega mjög dónalegt, en það fellur hratt á hana. Hún er miklu minna hot í ár en hún var bara fyrir tveimur árum síðan. Það er ótrúlegur munur.“

Hægt er að lesa nánar um samræður þingmanna á vef Stundarinnar og DV

Árni Þór Sigurðsson er fyrrverandi þingmaður VG.
Árni Þór Sigurðsson er fyrrverandi þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

Á DV er meðal annars birt frétt af ummælum Gunnars Braga Sveinssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra.

Á upptökunni, samkvæmt frétt DV, má heyra Gunnar Braga lýsa því hvers vegna hann skipaði Árna Þór Sigurðsson fyrrverandi þingmann VG og Geir H. Haarde sem sendiherra. Skipaði hann Árna Þór til að draga athyglina frá þeirri ákvörðun að skipa Geir sendiherra í Bandaríkjunum. Árni Þór var skipaður í Finnlandi og situr þar enn. Í kjölfarið taldi Gunnar Bragi sig eiga inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum, að hans biði svipuð staða síðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina