Fjórir hafa kvatt Miðflokkinn

mbl.is/Þorsteinn Friðrik

Fjórir hafa sagt sig úr Miðflokknum í dag. Þetta staðfestir Jón Pétursson, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins.

Ummæli þingmanna Miðflokksins og Fólks flokksins þar sem þau töluðu meðal annars illa um aðra þingmenn hafa vakið hörð viðbrögð í samfélaginu í dag. 

„Það er alrangt að það séu hópuppsagnir úr flokknum. Flokksmenn eru að meta stöðuna. Það er mikill baráttuhugur í mönnum. Það hefur einkennt okkur þessi gríðarlega samstaða sem hefur verið í flokknum,“ segir Jón.

Fregnir hafa borist af tveimur sem hafa sagt sig úr flokknum, eða þeim Vilborgu Hansen, sem hefur gegnt varamennsku í bankaráði Seðlabanka, og Gísla Bergsveini Ívarssyni, sem var á lista Miðflokksins í Garðabæ í síðustu sveitarstjórnarkosningum.

Fram kemur á facebooksíðu Gísla Bergsveins að leiðir hans og flokksins muni núna skilja. „Eftir atburðarás síðastliðins sólarhrings og framkomuna þar sé ég mér ekki lengur fært að kenna mig við Miðflokkinn og þá atburðarás sem við höfum orðið vitni að og mun leiðir okkar skilja núna,“ skrifar Gísli Bergsveinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert