Inga er „óumdeildur“ formaður Flokks fólksins

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins.
Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Inga Sæland er „óumdeildur formaður“ Flokks fólksins og nýtur mikils traust innan flokksins, segir Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is vegna upptöku þar sem þingmenn úr röðum Miðflokksins og Flokki Fólksins heyrast ræða óvarlega um ýmis málefni og meðal annars má heyra ljót orð um Ingu Sæland.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, og Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, hafa báðir sent frá sér afsökunarbeiðni vegna orða sinna um Ingu. Ólafur var á staðnum en tók ekki undir gagnrýni á Ingu sem kom fram í orðræðu annarra viðstaddra.

Ólafur segir að hann og Inga hafi rætt saman í gærkvöldi og milli þeirra sé ekkert vandamál. Á upptökunni má einnig heyra þingmenn Miðflokksins bera þá hugmynd á borð að Ólafur gangi til liðs við Miðflokkinn. Ólafur þvertekur fyrir að hann eða aðrir þingmenn Flokks fólksins séu að velta því fyrir sér að yfirgefa flokkinn.

„Svoleiðis komment eru algeng og maður svarar því alltaf eins. Maður þakkar fyrir sig og tekur fram að tilboðið gangi í báðar áttir,“ segir Ólafur.

Inga Sæland er formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland er formaður Flokks fólksins. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert