„Maður bara varð sér til skammar“

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, segist hafa orðið sér til skammar með ummælum sem hann lét falla á bar í Reykjavík og upptaka náðist af. Hann segist hafa sagt hluti sem séu ekki sannir og aðra sem hann hafi slitið úr samhengi. 

Þetta er meðal þess sem Gunnar sagði í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun þar sem hann sat í hljóðveri ásamt Ólafi Ísleifssyni, þingmanni Flokks fólksins. Á upptökunni, sem nú hafa ítarlegar fréttir verið birtar upp úr, fyrst í Stundinni og á vef DV, má heyra þá sem og fleiri þingmenn beggja flokkanna ræða menn og málefni með hætti sem flestum þykir óviðeigandi. Meðal annars ræddu þeir útlit og hæfi kvenna til að skipa forystusveitir stjórnmálaflokka. „Af hverju er maður að segja svona hluti?“ segir Gunnar Bragi m.a. um orð sem látin voru falla um Unni Brá Konráðsdóttur, Sjálfstæðisflokki. „Það er eitthvað í kollinum á manni sjálfum sem þarf að skoða.“

Hræðilegt mál

Þá segir hann að svona eigi ekki að tala um fólk, hvorki karla né konur. „Við verðum náttúrulega að læra af þessu,“ segir hann og við lestur frétta upp úr upptökunni „sér maður bara að þarna eru hlutir sem eru ósannir og hlutir sem eru teknir úr samhengi af manni sjálfum. Þannig að þetta er alveg hræðilegt mál“.

Ólafur Ísleifsson.
Ólafur Ísleifsson. Bragi Þór Jósefsson

Á upptökunni mátti m.a. heyra rætt niðrandi um formann Flokks fólksins, Ingu Sæland, sem og um hvort Ólafur og fleiri þingmenn þess flokks ættu ekki frekar erindi í Miðflokkinn. Þá var rætt um ýmis pólitísk mál, s.s. skipan sendiherra í tíð Gunnars Braga.

Má m.a. heyra Gunnar Braga segja að hann hafi skipað Árna Þór Sigurðsson, fyrrverandi þingmann Vinstri grænna, sem sendiherra á sama tíma og Geir H. Haarde til að draga athyglina frá skipun Geirs, skömmu eftir efnahagshrunið. Þannig ætti hann inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum. „Ég er bara ekki að segja satt þarna um að þetta hafi verið einhver díll [við Sjálfstæðisflokkinn],“ sagði Gunnar Bragi í morgunútvarpinu. Hann segist hafa skáldað þetta á staðnum og „bullað“ og „logið“ upp á formann Sjálfstæðisflokksins. 

Hann segir hins vegar að ákveðinn þrýstingur hafi verið frá Sjálfstæðisflokknum að skipa Geir. Hann segir að það hafi staðið lengur til að skipa Árna Þór en Geir og segist viðurkenna það að hann hafi talið það jákvæð áhrif á skipanirnar að skipa þá á sama tíma heldur en að skipa þá í sinn hvoru lagi. Einnig að það myndi hugsanlega draga úr neikvæðri umfjöllun um skipan Geirs sem hafi verið umdeild. 

Hins vegar hafi hann þarna skipað tvo mjög hæfa menn sendiherra. Geir sé afburðamaður sem hafi staðið sig gríðarlega vel í starfi. Hann segist aldrei hafa verið jafn sannfærður um neitt eins og að ráða Geir því meðferðin á honum, þ.e. þegar hann var dreginn fyrir landsdóm, hafi verið til skammar.

Í partíi að tala óvarlega

Gunnar segir þingmenn vera eins og annað fólk sem geri mistök. „Auðvitað segjum við af okkur ef við brjótum af okkur, ef við gerum eitthvað sem að er gegn þjóðarhag, þetta er ekkert svoleiðis.“ Þarna séu þingmennirnir, sem séu hópur sem eigi vel saman, fyrst og fremst í „einhverju partíi að tala óvarlega og illa [um fólk].“

Ólafur ítrekaði í viðtalinu í morgunútvarpinu að hann treysti Ingu Sæland fyllilega til að gegna formennsku í flokknum. Hún hafi gert það með heiðri og sóma. „Hún hefur þann hæfileika að hún getur talað inn að innstu hjartarótum fólks, hefur manni sýnst. Og hennar framganga hefur vakið þjóðarathygli.“

Hann neitar því að vera á leið í Miðflokkinn eins og rætt hafi verið þetta kvöld á barnum, m.a. að honum fjarstöddum. Gunnar segir það ekki þannig að verið sé að bjóða Ólafi að taka við „einhverjum veldissprota í Miðflokknum. Við hittumst oft, þessi hópur er ágætlega samrýndur [...]. Það eru aðrir hópar í þinginu sem hittast mikið og tala mikið saman. Ég vona bara að þeir hagi sér ekki eins og við.“

Hugsi yfir að samræðurnar hafi verið teknar upp

Gunnar sagðist skilja að fólk vildi tala um þau orð sem þingmennirnir létu falla „en er það virkilega þannig að mönnum finnst það bara í lagi að það sé verið að taka upp samtöl fólks? [...] Það er grafalvarlegt mál. Hvort sem það er á bar eða einhvers staðar annars staðar.“

Sigmar Guðmundsson, umsjónarmaður í morgunþættinum, skaut þá inn í að menn yrðu samt að kunna sig og Gunnar Bragi samsinnti því. „Maður bara varð sér til skammar.“

Ólafur segist einnig vera mjög hugsi yfir upptökunni. „Getur ekki hver og einn séð sig í þessum sporum? Og að fjölmiðlar skuli telja heimilt að nota svona efni. Þetta hlýtur til að mynda að þurfa ræðast á vettvangi Blaðamannafélagsins.“

Spurður hvaða pólitískar afleiðingar málið muni hafa segir Gunnar Bragi það kjósenda að kveða upp um það á endanum. „Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þingmenn gera einhverjar gloríur,“ segir Gunnar, „fólk verður líka svolítið að setja sig í þessa stöðu. Hafa ekki flestir lent í einhverju svona?“

Hann segist ætla læra af þessu og biðja fólk afsökunar. „Vegna þess að það er það sem maður á að gera þegar maður hagar sér svona.“

mbl.is

Bloggað um fréttina