Óveðrið olli skemmdum

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Mikið hefur verið um útköll hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna veðurs í nótt þar sem byggingarefni, þakplötur, girðingar, lausir  munir, jólatré og fleira fuku og ollu jafnvel skemmdum á bifreiðum og öðru sem fyrir varð.

Slökkviliðsmenn voru fengnir til þess að aðstoða lögreglu vegna foks á vinnupöllum á Eiðistorgi undir morgun en að öðru leyti var nóttin rólega hjá slökkviliði og sjúkraflutningsmönnum á höfuðborgarsvæðinu.

Björgunarsveitir voru kallaðar út til aðstoðar af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og segir Davíð Már Bjarna­son, upp­lýs­inga­full­trúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, að þrír hópar björgunarsveitarfólks hafi verið að störfum í nótt og er það eini staðurinn á landinu sem kalla þurfti út björgunarsveitarfólk vegna veðurs. Verkefnin tengdust einkum foki á byggingarsvæðum auk þess sem jólaskreytingar fóru af stað. 

Davíð segir að björgunarsveitarfólk verði áfram í viðbragðsstöðu enda veðrið ekki gengið yfir og þjóðvegur 1 enn lokaður að hluta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert