Skammarleg viðhorf til kvenna

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, …
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, og Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, í Alþingishúsinu í hádeginu. mbl.is/Árni Sæberg

„Ummæli þau sem þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins létu falla 20. nóvember á Klaustri lýsa skammarlegum viðhorfum til kvenna og við lítum þau verulega alvarlegum augum,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu sem Odd­ný G. Harðardótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, Inga Sæ­land, formaður Flokks fólks­ins, og Silja Dögg Gunn­ars­dótt­ir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, hafa sent frá sér vegna ummæla sem nokkr­ir þing­menn Miðflokks­ins og Flokks fólks­ins létu falla um sam­starfs­menn sína á barn­um Klaustri í síðustu viku.

Þingkonurnar fordæma ummælin og ætla að óska eftir því að málið verði tekið upp í forsætisnefnd.

Hóp­ur kvenna á þingi situr nú á fundi í Alþingishúsinu í þeim tilgangi að ræða um­mæli þingmannanna. Fundurinn hófst klukkan 11:30. 

Sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is rædd­ust þær kon­ur við sem getið er í upp­tök­unni í gær­kvöldi og í fram­hald­inu var ákveðið að kalla sam­an kon­ur á þingi til fund­ar. 

Á upp­tök­unni má heyra þing­menn beggja flokk­anna ræða menn og mál­efni með hætti sem flest­um þykir óviðeig­andi. Þar er meðal ann­ars rætt um út­lit stjórn­mála­kvenna, gáfnafar og and­lega eig­in­leika. Meðal kvenna sem þing­menn­irn­ir töluðu um með niðrandi hætti eru Inga Sæ­land, formaður Flokks fólks­ins, Silja Dögg Gunn­ars­dótt­ir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, og Odd­ný G. Harðardótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

Ólíðandi að karlar í valdastöðum sýni kvenfyrirlitningu 

Oddný, Inga og Silja Dögg segja það algjörlega ólíðandi að karlar í valdastöðum sýni slíka kvenfyrirlitningu og tjái sig á jafn niðrandi hátt um konur og samkynhneigða. „Þá skiptir einu hvort um er að ræða pólitíska andstæðinga eða samherja.“

Í yfirlýsingunni segir einnig að ummælin opinberi viðkomandi þingmenn og dæmi sig sjálf. „Hegðun þeirra er ekki til þess fallin að auka virðingu almennings á Alþingi eða á stjórnmálamönnum og setur samstarf og trúnað í uppnám.“

Að lokum vilja þingkonurnar minna á siðareglur sem allir þingmenn hafa undirgengist og vísa þær í 5. grein um meginreglur um hátterni þingmanna sem og hátternisskyldur alþingismanna þar sem segir að þingmenn skuli í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu.

Stein­grím­ur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði í samtali við mbl.is í morgun að ekki hef­ur verið boðað til sér­stak­s fund með þing­flokks­for­mönn­um vegna máls­ins og seg­ir lík­legt að málið verði ekki rætt fyrr en dag­skrá þings hefst á mánu­dag.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert