„Þetta er reiðarslag“

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ .
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ . mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta er reiðarslag,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, um hópuppsagnirnar hjá Airport Associates þar sem 237 manns var sagt upp.

Hann kveðst ekki vita hvaða einstaklingum var sagt upp en þykist vita að flestir þeirra búa á Suðurnesjum, þar á meðal í Reykjanesbæ. Um sé að ræða mikið högg fyrir samfélagið.

„Við bindum vonir við að það takist að komast hjá falli WOW með einhverjum hætti,“ bætir hann við og vonar að hægt verði að afstýra uppsögnum ef það gengur upp.

„Það er enginn góður tími fyrir svona fréttir. En á þessum tíma fyrir jól er þetta sérstaklega viðkvæmur tími. Hugur okkar er hjá þessum starfsmönnum og fjölskyldum þeirra,“ segir bæjarstjórinn.

Spurður hvort hann hafi óttast þetta þegar tilkynnt var í morgun að Icelandair myndi ekki kaupa WOW air viðurkennir hann það. Á sama tími sé það skiljanlegt að menn bregðist við með þessum hætti, miðað við hversu stór hluti flugumferðarinnar er í höndum WOW air. „Það er eðlilegt að það hafi áhrif á birgja eða önnur fyrirtæki sem eru að selja þeim þjónustu,“ segir hann en tekur fram að hópuppsögnin sé engu að síður áfall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert