Tveir sagt sig úr Miðflokknum

Miðflokkurinn.
Miðflokkurinn. mbl.is/Þorsteinn Friðrik

Tvær úrsagnir hafa borist Miðflokknum þar sem skráðir félagsmenn óskuðu að ganga úr flokknum. Þetta staðfestir Jón Pétursson, aðstoðarmaður formanns Miðflokksins. Í gær sögðu miðlarnir DV og Stundin frá leynilegri upptöku þar sem þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins ræða um aðra þingmenn á barnum Klaustri fyrir rúmlega viku.

Hafa ummælin verið gagnrýnd harðlega af þingmönnum í dag og hafa þeir þingmenn sem ræddu saman beðist afsökunar á ummælum sínum.

Vilborg Hansen, sem gegnt hefur varamennsku í bankaráði Seðlabankans fyrir hönd Miðflokksins, sagði frá því á Facebook í dag að hún hefði sagt sig úr flokknum og bankaráði. Mbl.is leitaði upplýsinga hjá Jóni hvort fleiri hefðu sagt sig úr flokknum í dag vegna ummælanna. Sagðist hann aðeins hafa upplýsingar um að tveir hefðu sagt sig úr flokknum í dag. „Þetta eru ekki fjöldaúrsagnir,“ sagði Jón.

Engar kröfur um frekari ábyrgð á ummælunum

Fyrr í dag fundaði þingflokkur Miðflokksins, en fjórir af sjö þingmönnum flokksins tóku þátt í samtalinu umdeilda. Segir Jón að þingflokkurinn líti málið alvarlegum augum og að næstu skref séu að meta stöðuna. Hann segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um frekari fundarhöld stjórnar flokksins eða hjá trúnaðarráði, en að menn hafi sett sig í samband við trúnaðarfólk í kjördæmum víða um land með það fyrir augum að upplýsa um hvað gerðist.

Fjórmenningarnir sendu í dag frá sér tilkynningu þar sem þeir biðjast afsökunar á „ónær­gætn­um orðum“ sem féllu í einkasamtölum. „Það var ekki ætl­un okk­ar að meiða neinn og ljóst má vera að sá tals­máti sem þarna var á köfl­um viðhafður er óafsak­an­leg­ur,“ segir jafnframt í tilkynningunni. Spurður hvort aðrir þingmenn flokksins hafi gert kröfur um að fjórmenningarnir myndu bera frekari ábyrgð á ummælum sínum segir Jón að engar slíkar kröfur hafi verið gerðar á fundinum.

mbl.is