Veðrið kom ekki flatt upp á landsmenn

Björgunarsveitir hafa mannað lokunarpósta frá kl. 18 í gær.
Björgunarsveitir hafa mannað lokunarpósta frá kl. 18 í gær. Víkurfréttir/Hilmar Bragi Bárðarson

Starf björgunarsveita hefur gengið vel í vetrarveðrinu sem geisað hefur á landinu frá í gær og segir upplýsingafulltrúi Landsbjargar ánægjulegt að fólk virðist hafa tekið mark á viðvörunum.

„Þetta hefur ekki verið nein holskefla af verkefnum sem hafa komið á borð björgunarsveitanna í dag. Mest hefur álagið verið fyrir norðan, og það eru þá helst ófærðartengd verkefni. Bílar sátu fastir í þéttbýlum í morgun og svo hafa ökumenn lent í vandræðum, svo sem á Öxnadalsheiði,“ segir Davíð Már Bjarnason.

Björgunarsveitir voru kallaðar til upp úr hádegi vegna sautján manna rútu sem hafði misst kerru og sat föst í ófærð í Fnjóskadal.

„Menn eru ekkert að sligast undan álagi, en það hafa vissulega verið þó nokkur verkefni fyrir björgunarsveitir á Norðurlandi,“ segir Davíð Már, en að í veðri sem þessu hafi oft verið meira um verkefni.

„Við verðum bara að lesa í það að líklega hafa þó nokkuð margir tekið mark á þessum viðvörunum sem hafa ómað síðustu daga. Þá hafa fáir, ef einhverjir ferðamenn, lent í vandræðum að okkur vitandi. Það er jákvætt að þetta sé að komast til skila.“

„Þótt þetta sé fyrsta alvöruvetrarveðrið þennan veturinn virðist það ekki hafa komið mjög flatt upp á fólk,“ segir Davíð Már. Björgunarsveitarmenn munu standa vaktina áfram, en á Norðurlandi er ekki gert ráð fyrir því að veðrið gangi niður fyrr en á morgun.

„Björgunarsveitarfólk hefur mannað lokunarpósta frá kl. 18 í gær. Það eru allir meðvitaðir um það að veðrið er ekki alveg gengið yfir. Það er enn vont veður fyrir norðan, hríð, lítið skyggni og ekkert ferðaveður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert