Fundurinn boðaður með lögmætum fyrirvara

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir það úr lausu lofti gripið hjá Karli Gauta Hjaltasyni og Ólafi Ísleifssyni, þingmönnum flokksins, að stjórnarfundur flokksins sem hófst klukkan 14 hafi verið boðaður með ólögmætum fyrirvara. Karl Gauti er í stjórn flokksins en mætti ekki á fundinn.

Grein sem hægt er að grípa til komi til styrjaldar

„Þetta er sérstakt ákvæði sem er sett þarna inn þar sem meginreglan er að boða til stjórnarfundar með tveggja sólarhringa fyrirvara, en það getur náttúrulega enginn stjórnmálaflokkur starfað þannig,“ segir Inga í samtali við mbl.is og vísar í samþykkt flokksins. Í sjöttu málsgrein fimmta kafla um stjórn félagsins segir að fundir stjórnar séu löglegir þegar meirihluti stjórnar er mættur.

„Greinin er sérstaklega sett þarna inn viljandi til þess að við höfum þarna ákvæði sem við getum gripið til ef að kæmi hérna til styrjaldar eða eitthvað og við þyrftum að koma saman stjórnin, sem er æðsta vald flokksins,“ segir Inga.

Á fundinum verður farið yfir ályktun Flokks fólksins sem samþykkt var á stjórnarfundi í gær þar sem skorað er á Ólaf Ísleifs­son og Karl Gauta að segja af sér þing­mennsku vegna ummæla sem þeir létu falla á barnum Klaustri í síðustu viku.

Boðar til stjórnarfundar á sunnudag „til að gleðja alla“

Inga segir óvíst hvað komi út úr fundinum. „Við bara sjáum hvað þetta leiðir af sér.“ Hún hefur hins vegar boðað til nýs stjórnarfundar um helgina. „Það verður boðað til fundar á sunnudaginn með tveggja sólarhringa fyrirvara til að gleðja alla og til að koma til móts við óöryggi Karls Gauta um lögmætingu okkar stjórnarfundar.“

Þá segist Inga standa við ummæli sín frá því í gærkvöldi þar sem hún sagði  ómögu­legt að brúa þá gjá sem Karl Gauti myndaði með um­mæl­um sín­um þess efn­is að Inga réði ekki við að stjórna flokkn­um. „Það er alveg nákvæmlega sama hvað er sagt, það er ekki hægt að taka það aftur sem fram fór á þessum bar. Þetta er einfaldlega algjörlega óboðlegt, það er bara þannig, og eins og allir sjá þá hlýtur trúnaðarbresturinn að vera algjör.“

mbl.is