Dæmd fyrir kynferðislega áreitni

Amal Fathy.
Amal Fathy. Amnesty International

Egypsk kona sem birti myndskeið í maí af kynferðislegri áreitni sem hún varð fyrir í banka hefur verið dæmd í tveggja ára fangelsi fyrir að deila falsfréttum og fyrir að hafa ætlað sér að skaða egypska ríkið með dreifingu ósæmilegs efnis. Jafnframt var hún dæmd til þess að greiða háar fjárhæðir í sekt fyrir brot sín. 

Leikkonan Amal Fathy er ein þeirra tíu baráttukvenna sem undirskriftaherferð Amnesty International Bréf til bjargar lífi beinist að í ár. Síðdegis í dag mun Amnesty International ýta af stað herferðinni með gagnvirku ljósainnsetningunni Lýsum upp myrkrið. Eliza Reid forsetafrú setur ljósainnsetninguna formlega við Hallgrímskirkju klukkan 17.

Lýstu upp myrkrið.
Lýstu upp myrkrið.


Gestir geta lýst upp myrkrið sem mannréttindabrotin eru og tekið þátt í ljósainnsetningunni með því að skrifa undir málin á spjaldtölvu fyrir framan kirkjuna. 

Eftir að Amal Fathy hafði farið í banka sinn í Kaíró 9. maí skráði hún sig inn á Facebook-síðuna sína og setti inn myndskeið þar sem hún sakar lögreglumann sem var við öryggisgæslu í bankanum um kynferðislega áreitni. 

„Jafnvel lögreglumaður á vakt í bankanum stóð þarna og þuklaði á sjálfum sér,“ segir Fathy í myndskeiðinu. Hún segir manninn hafa hegðað sér á afar ósæmilegan hátt gagnvart henni, bæði með látbragði og orðbragði. Fathy gagnrýndi einnig egypsk stjórnvöld fyrir að hafa ekki takið á kynferðislegu ofbeldi gagnvart konum af festu.

Tveimur dögum síðar gerði lögregla húsleit á heimili hennar, handtók Fathy ásamt eiginmanni hennar og þriggja ára gömlum syni þeirra. Þau voru öll þrjú vistuð í fangaklefa fyrir að dreifa lygafréttum. Feðgarnir voru látnir lausir síðar sama dag en Fathy er enn á bak við lás og slá og verður næstu árin. 

Annað mál hefur verið höfðað gegn henni en nú er hún sökuð um að vera liðsmaður hryðjuverkasamtaka. 

Fathy áfrýjaði dómnum og fóru verjendur hennar fram á að hún yrði látinn laus þangað til niðurstaða áfrýjunardómstóls lægi fyrir. Þeirri beiðni hefur ítrekað verið hafnað og hún úrskurðuð í áframhaldandi gæsluvarðhald.

12. nóvember staðfesti dómstóll að hún skyldi sæta gæsluvarðhaldi í 45 daga til viðbótar þrátt fyrir að ekki sé heimild í lögum fyrir því að halda manneskju svo lengi í haldi áður en málið er tekið fyrir af dómstólum en Fathy hefur setið í varðhaldi frá því í maí.

Amal Fathy er í haldi í Qanater-kvennafangelsinu í Kaíró en þar hefur hún verið frá 13. maí. Samkvæmt upplýsingum frá mannúðarsamtökum fer heilsa hennar mjög versnandi og þegar hún mætti í yfirheyrslu í byrjun júlí gat hún ekki gengið án stuðnings og glímir við alvarlega áfallastreituröskun. 

Síðasta sumar voru sett ný lög í Egyptalandi, lög um stafræna miðlun og miðlun lygafrétta. Fjölmargir stjórnarandstæðingar hafa síðan þá verið dæmdir sekir um að dreifa lygum á netinu. 

Kynferðislegu ofbeldi mótmælt í Kaíró.
Kynferðislegu ofbeldi mótmælt í Kaíró. NAMEER GALAL

Í rannsókn sem Sameinuðu þjóðirnar birtu árið 2013 greindu 99% egypskra kvenna frá kynferðislegri áreitni sem þær höfðu orðið fyrir á lífsleiðinni. Kaíró var lýst sem hættulegustu stórborg heims fyrir konur í fyrra. 

Mohamed Lotfy, eiginmaður Fathy, starfar fyrir egypsk mannréttindasamtök og var áður starfsmaður Amnesty International. Hann fékk ekki að vera viðstaddur réttarhöldin yfir konu sinni. 

Najia Bounaim, sem stýrir starfi Amnesty International í Norður-Afríku, segir málið dæmi um óréttlætið sem enn sé við lýði. Að fórnarlambið er dæmt í fangelsi á meðan ofbeldismaðurinn gengur laus. 

„Hún er verjandi mannréttinda og fórnarlamb kynferðislegrar áreitni sem sagði heiminum sannleikann og vakti athygli á nauðsynlegri umræðu um öryggi kvenna í Egyptalandi. Hún er ekki glæpamaður og það á ekki að refsa henni fyrir hugrekkið,“ segir Bounaim. 

En mál Fathy er ekkert einsdæmi í Egyptalandi líkt og fjallað hefur verið um á mbl.is. 

Mona el-Mazbouh var dæmd í átta ára fangelsi í sumar fyrir að hafa birt myndskeið frá flugvellinum í Kaíró á Facebook. Dómurinn var síðar mildaður í eins árs fangelsi og síðan afnuminn þegar henni var vísað úr landi í september.  

Adbdel Fattah al-Sisi er forseti Egyptalands.
Adbdel Fattah al-Sisi er forseti Egyptalands. AFP

Forseti Egyptalands, Abdel Fatah al-Sisi, komst til valda eftir valdarán hersins árið 2013 og naut mikils stuðnings meðal kvenna, ekki síst fyrir loforð hans um að tryggja öryggi kvenna á götum úti í Egyptalandi og berjast gegn kynbundnu ofbeldi.

Amnesty International telur að Amal Fathy sé samviskufangi og hvetur Íslendinga til þess að skrifa undir bréf til egypskra yfirvalda um að láta hana lausa strax. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert