„Ekki um annað að ræða“

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, ásamt Ingu Sædal, formanni …
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, ásamt Ingu Sædal, formanni flokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Átta greiddu atkvæði með brottrekstri þeirra Ólafs Ísleifssonar og Karls Gauta Hjaltasonar úr Flokki fólksins á stjórnarfundi flokksins sem var haldinn í dag. Einn var á móti.

Þetta staðfestir Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins.

„Að mínu áliti var ekki um annað að ræða. Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál. Þeir voru þátttakendur þarna inni. Það sem setur þetta í enn alvarlegri stöðu er að þarna var stjórn Miðflokksins líka,“ segir Guðmundur Ingi og á þar við samtal þeirra við þingmenn Miðflokksins á barnum Klaustri í síðustu viku.

Guðmundur bendir á að þingmennirnir hafi verið á barnum á sama tíma og verið var að ræða fjárlögin og að það sé óásættanlegt hvernig talað var um konur, fatlaða, samkynhneigða og samstarfsfólk, þó svo að þeir tveir hafi ekki tekið þátt í öllu sem var sagt.

„Þeir segja svo í lokin að þetta hafi verið góður fundur og að þeir séu ánægðir með þetta. Þannig að þeir samþykkja allt sem fór þarna fram í lokin,“ segir Guðmundur Ingi um það sem gerðist á Klaustri.

Hvorugur þeirra var viðstaddur stjórnarfund Flokks fólksins. Aðspurður segir Guðmundur að þeir Ólafur og Karl muni starfa utanflokka á þingi ef þeir muni ekki segja af sér þingmennsku.

Spurður út í næstu skref segir Guðmundur að flokkurinn muni halda ótrauður áfram að vinna að málefnum sínum Hann reiknar með því að flokkurinn muni funda um áframhald mála á næstu dögum.

mbl.is