„Erum búin undir það versta“

Í gærkvöld var til­kynnt um að Indigo Partners og WOW …
Í gærkvöld var til­kynnt um að Indigo Partners og WOW air hafi náð sam­komu­lagi um að Indigo fjár­festi í flug­fé­lag­inu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfum gríðarlegar áhyggjur af stöðunni nú þegar ljóst er að ekkert verður af sameiningu. Auðvitað vonum við það besta og að aðrir aðilar komi að flugfélaginu. Það eru mörg störf í húfi, ekki bara meðal félagsmanna okkar heldur einnig uppi á flugvelli og fjölmörg afleidd störf tengd ferðaþjónustunni,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við Morgunblaðið.

Vísar Ragnar Þór í máli sínu til þeirrar grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í rekstri flugfélagsins WOW air. Greint var frá því í gærmorgun að ekkert yrði af kaupum Icelandair Group á WOW air. Í kjölfarið boðaði Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, til fundar með starfsmönnum félagsins. Eftir fundinn útilokaði Skúli ekki uppsagnir vegna mikils rekstrarvanda flugfélagsins. Spurður hvort starfsfólk fái laun sín greidd um mánaðamót sagði hann: „Að sjálfsögðu. Aldrei verið vafi á því.“ Bætti hann því næst við að hann hefði „ekkert meira um þetta að segja“ og gaf fjölmiðlum ekkert frekara færi á viðtal.

Fjárfestingarfélagið Indigo Partners og flugfélagið WOW air hafa gert milli sín samkomulag um að Indigo Partners fjárfesti í WOW air, að því er segir í fréttatilkynningu fyrirtækjanna tveggja. Ekki er greint frá skilmálum samkomulagsins en sagt er frá því að að uppfylltum skilyrðum muni fyrirtækin reyna að ganga eins fljótt og auðið er frá viðskiptunum. Gert er ráð fyrir því að Skúli Mogensen, núverandi eigandi WOW air og forstjóri félagsins, verði áfram stærsti hluthafi í félaginu. Talsmaður Indigo Partners sagðist ekki geta veitt frekari upplýsingar um samkomulag fyrirtækjanna umfram það sem kom fram í fréttatilkynningu þeirra þegar Morgunblaðið spurðist fyrir. „Skúli, stjórn WOW og starfsmenn hafa staðið sig ótrúlega vel við að búa til vel liðið fyrirtæki sem hefur náð góðum árangri,“ er haft eftir Bill Franke hjá Indigo Partners í tilkynningunni. „Við höfum ákveðna sýn fyrir flugfélagið og hlökkum til að starfa með starfsmönnum þess og fulltrúum til að framkvæma þessa sýn.“ Fyrirtækið er aðalfjárfestir í Tiger Airways sem er með bækistöðvar í Singapúr, og Spirit Airlines, sem er á Flórída í Bandaríkjunum. Það er einnig stór fjárfestir í Wizz Air, Frontier Airlines, Volaris Airlines og JetSMART. Ekki náðist í Skúla Mogensen vegna málsins.

Ragnar Þór Ingólfsson.
Ragnar Þór Ingólfsson.

VR með viðbragðsáætlanir

Ragnar Þór segir hátt í 250 félagsmenn VR starfa hjá WOW air. Spurður hvort einhverjir þeirra hafi þegar leitað til stéttarfélagsins vegna rekstrarvanda flugfélagsins sagði hann: „Ég veit ekki til þess að stéttarfélagið hafi fengið fyrirspurnir. Við höfum hins vegar rætt ákveðnar viðbragðsáætlanir, ef allt fer á versta veg, til að geta tekið á móti okkar fólki, veitt því allar upplýsingar og um leið nauðsynlegan stuðning. Við erum því búin undir það versta en vonum það besta.“

Þá segist Ragnar Þór hafa trú á því að vandi WOW air leysist og að hægt verði að koma félaginu fyrir vind. „Ég hvet félagsmenn til að hafa samband vilji þeir fá einhverjar upplýsingar almennt, en á sama tíma hvet ég fólk til að halda ró sinni þar til við vitum hvernig hlutir enda að lokum,“ segir Ragnar Þór. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir þau fylgjast „afar náið“ með stöðunni. „Ef hlutir fara eins og útlit er fyrir þá er það grafalvarlegt mál fyrir ferðaþjónustu á Íslandi,“ segir hann og bendir á að ljóst sé að staða WOW air sé mjög flókin. „Við skulum þó spyrja að leikslokum, það hafa áður sést ótrúlegar fléttur í fluginu,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert