Framhaldið í þeirra höndum og kjósenda

Konurnar segjast ekki sjá fyrir sér hvernig þingstörfin eigi að …
Konurnar segjast ekki sjá fyrir sér hvernig þingstörfin eigi að virka eftir uppljóstranirnar. Eggert Jóhannesson

„Ég skil ekki hvernig þetta fólk, með sitt umboð, ætlar að starfa áfram. Ég held að þeirra kjósendur hafi verið sviknir,“ sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, eru á sömu skoðun. Hins vegar segja þær allar að þingmennirnir verði sjálfir að gera það upp við sig hvort þeir telji sig geta setið áfram á Alþingi, þá sé ekki hægt að reka úr vinnunni. „Ég átta mig ekki á hvernig þingstörfin eiga að virka eftir þetta,“ sagði Silja Dögg. 

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Ljósmynd/Bragi Þór Jósefsson

Allar þessar þrjár konur voru meðal þeirra fjölmörgu sem þingmannahópurinn ræddi um á barnum, oft með mjög grófum og dónalegum hætti.

„Þegar maður er þingmaður vill maður vera dæmdur af sínum verkum og telur að allir séu jafningjar inni á þingi,“ sagði Unnur Brá. „Þegar það opnast svona fyrir manni hvað fólki raunverulega finnst um kollega sína þá er þetta svo ljótt þannig að ég sé ekki alveg fyrir mér hvernig fólk ætlar að starfa saman. Það er rétt að enginn getur tekið slíka ákvörðun nema þeir sem eiga í hlut og svo að sjálfsögðu geta kjósendur látið sínar skoðanir í ljós með ýmsum hætti. [...] Ég get ekki séð af viðbrögðum þeirra í gær að þeir ætli að gera eitthvað í þessu.“

Oddný sagðist enn standa við það sem hún sagði í gær. Hún sæi ekki fyrir sér að þessi hópur gæti starfað á Alþingi Íslendinga eftir þetta. Hins vegar verði þingmennirnir sjálfir að gera það upp við sig. Sjálfri finnst henni mjög athyglisvert að eini þingmaðurinn úr hópi sexmenninganna sem segist vera að íhuga stöðu sína sé kvenmaðurinn í hópnum, Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins. „Mér finnst það segja sína sögu.“

Oddný G. Harðardóttir.
Oddný G. Harðardóttir. Ljósmynd/Bragi Þór Jósefsson

Unnur Brá sagði að þetta liti þannig út fyrir sér að þarna hefðu setið að sumbli „hræddir karlar við sterkar konur“. Hún sagðist þess fullviss að það væri ekki verið að tala um hana á þessum bar nema að því að hún væri sterk og ógn við þeirra tilveru í pólitík. Hún segir hins vegar að það versta við þetta allt saman sé hin alltumlykjandi kvenfyrirlitning sem þarna birtist og virðingarleysi gagnvart fólki almennt. 

Silja Dögg segist vinna náið með því fólki úr hópnum sem talaði hvað verst um hana. „Orðfærið náttúrlega dæmir sig sjálft, þetta er bara ógeðslega subbulegt í alla staði.“

Oddný sagðist einnig vinna náið með mörgum úr hópnum og að nú væri fallið á trúnaðinn og virðinguna. „Í þessari æðstu og elstu stofnun landsins, sem er Alþingi, þá getum við ekki sagt að þetta sé í lagi og leyft þeim að halda áfram. Ég veit að ég get ekki rekið þá, en þeir þurfa að gera þetta upp við sig og þeirra stuðningsmenn og kjósendur.“

Oddný segir að Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, hafi beðið sig afsökunar í gær. Það hafi hins vegar verið gert áður en grófustu upplýsingarnar komu fram í fréttum. Hvorki Unnur Brá né Silja Dögg höfðu heyrt í sexmenningunum. 

Unnur Brá Konráðsdóttir.
Unnur Brá Konráðsdóttir. Ljósmynd/Bragi Þór Jósefsson

„Ég til dæmis fór á Bessastaði í gærkvöldi og þar var mætt Anna Kolbrún meðal annarra og Sigmundur Davíð. Og þau nálguðust mig ekki og gerðu enga tilraun til þess. Það hefur enginn hringt í mig eða sent mér skilaboð eða nokkuð annað.“ Hún sagði yfirlýsingu sem Miðflokksmennirnir sendu frá sér í gær aðeins hafa verið yfirklór sett fram í tilraun til að bjarga því sem bjargað yrði.

Unnur Brá sagði að málið snerti ekki aðeins þá sem þingmennirnir ræddu um heldur allt þingið og samfélagið allt.

Silja Dögg sagði að það sem sagt var um Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra hafi verið hræðilegt og hún nánast orðlaus. „Ég veit ekki hvernig þetta fólk sem var þarna statt ætlar að horfa framan í hana Lilju Dögg Alfreðsdóttur eftir þetta. Hún sagði sjálf í gær að þetta væri óafsakanlegt og ég skil hana mjög vel.“

mbl.is

Bloggað um fréttina