Frásögn ákærða af samræði með ólíkindum

Auk fangelsisvistar er manninum gert að greiða konunni eina og …
Auk fangelsisvistar er manninum gert að greiða konunni eina og hálfa milljón króna í miskabætur. mbl.is/Hanna

Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra frá desember 2017 þar sem karlmaður var dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar fyrir að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við konu gegn hennar vilja.

Ákærði stakk fingrum í leggöng konunnar og hafði við hana samræði þar sem hún lá sofandi í sófa og notfærði sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar. Auk fangelsisvistar er manninum gert að greiða konunni eina og hálfa milljón króna í miskabætur.

Ákærði og brotaþoli lýstu atvikum með ólíkum hætti en báru bæði að engir kossar hafi verið fyrir samræðið, ákærði hafi fært buxur og nærbuxur brotaþola niður án þess að brotaþoli hafi hjálpað til og að engin orð hafi farið þeim í milli eftir að samræðinu lauk.

Leitaðist við að gera meira úr þátttöku brotaþola

Framburður brotaþola er í niðurstöðu Landsréttar sagður stöðugur um helstu atvik. Er framburður ákærða að sama skapi sagður nokkuð stöðugur þrátt fyrir að ákærði leitaðist við að gera heldur meira úr þátttöku brotaþola í kynferðisathöfnum í framburði sínum fyrir héraðsdómi en hann hafði borið um fyrir lögreglu.

Þá segir í niðurstöðu Landsréttar að frásögn ákærða af aðdraganda þess að hann hafði samræði við brotaþola hafi verið „með nokkrum ólíkindum,“ enda hafi ákærði sagt samræðið hafa hafist án nokkurrar snertingar þar á undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert