Ummælin jafnvel metin eftirsóknarverð hegðun

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og þingmaður VG.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það sem er alvarlegast í þessu er að þetta er viðvarandi og stendur yfir klukkutímunum saman án þess að nokkur úr þessum hópi sjái ástæðu til að hreyfa við andmælum þannig að þetta er greinilega eitthvað sem er metið í þessum tiltekna hópi sem eðlileg og jafnvel eftirsóknarverð hegðun,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um hegðun Klaustursþingmannanna svokölluðu í samtali við mbl.is.

„Þarna situr formaður flokk og þingflokksformaður flokks, sem hafa þá ákveðnar skyldur gagnvart hópnum í heild og sínu baklandi, sem sjá ekki ástæðu til þess að hreyfa við andmælum við því að þarna sé í raun og veru verið að fara fram með meiðandi og ósæmileg ummæli,“ bætir hún við.

Ríkisstjórnin var samankomin í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu til að halda ríkisstjórnarfund og halda upp á eins árs starfsafmæli ríkisstjórnarinnar þegar mbl.is náði tali af Svandísi.

Bakslag í jafnréttisbaráttu

Hún segir Klaustursmálið þyngra en tárum taki og að það endurspegli það að við síðustu kosningar hafi orðið bakslag hvað varðar fækkun kvenna á Alþingi og að það endurspegli einnig að „svo virðist sem það sé hópur á Alþingi sem telur það eðlilegt undir tilteknum kringumstæðum að viðhafa lítilsvirðandi og niðurlægjandi ummæli um samstarfskonur sínar á þinginu.“

„Það er auðvitað gríðarlegt bakslag í jafnréttisbaráttu og varðar allar konur og í raun samfélagið allt að mínu mati,“ segir Svandís jafnframt.

Óhróður klukkutímunum saman

Aðspurð hvort hún telji að frekari aðgerða sé þörf vegna málsins segir Svandís það fulla ástæðu til þess að kalla saman siðanefndina „vegna þess að þetta er svo grafalvarlegt. Þetta eru ekki stök afmörkuð ummæli heldur situr þarna hópur fólks og eys úr sér óhróðri klukkutímunum saman án þess að nokkur hreyfi við andmælum.“

„Ef að þetta tilefni er ekki ærið til þess þá veit ég ekki hvenær það er,“ bætir hún við.

Kallar ekki eftir afsögn og telur ekki þörf á rannsókn vegna skipun sendiherra

Aðspurð hvort hún kalli eftir afsögn þeirra þingmanna sem tóku þátt í umræðunum á Klaustri segist hún ekki ætla að gera það. „En ég tek eftir því sem er að gerast í Flokki fólksins þar sem lýðræðislegur vettvangur hefur tekið málið til umfjöllunar og ég veit ekki til þess að sambærilegur vettvangur Miðflokksins hafi fjallað um málið.“

Þá vildi hún sig ekki tjá sig sérstaklega um það hvort yfirvöld þurfi að skoða frekar meinta spillingu hvað varðar skipun í stöður sendiherra.

„Mér sýnist að menn hafi verið að tala úr og í með það og Gunnar Bragi sjálfur heldur því fram að hann hafi farið með ósannindi þar sem hann stundum segist ekki muna hvað hann sagði og svo framvegis. Þannig að það ægir öllu saman hvað það varðar,“ segir hún.

Megum ekki sofna á verðinum

„En ég vil líka segja að lokum um þetta mál að þetta endurspeglar það líka að það er full þörf á feminískri baráttu í íslensku samfélagi þrátt fyrir að við skorum hátt á jafnréttismælikvarða á heimsvísu og minnir okkur á að við megum ekki sofna á verðinum, karlar og konur, sem berjast fyrir kvenfrelsi,“ bætir Svandís við að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert