Ríkisstjórnin fagnar eins árs afmæli

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra blæs á afmæliskertið á meðan aðrir ráðherrar …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra blæs á afmæliskertið á meðan aðrir ráðherrar iða af tilhlökkun. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs heldur í dag upp á eins árs starfsafmæli sitt og við það tilefni var fjölmiðlum boðið í Ráðherrabústaðinn á Tjarnargötu þar sem boðið var upp á kaffi og kökur.

Áður en kaffiboðið hófst fór fram ríkisstjórnarfundur sem átti að ljúka kl. 11 en þar hann varð töluvert lengri en áætlað var þá þurfti að gera stutt hlé á honum til að fjölmiðlum gæfist færi á að hitta ráðherrana og sjá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra blása á kertið á afmæliskökunni.

Eftir að Katrín hafði lokið við að blása á kertið hófst hún handa við að skera veglega afmæliskökuna. Hún skammtaði svo fjölmiðlafólki á diska eins og sönnum gestgjafa sæmir.

Nokkuð kátt var á hjalla í Ráðherrabústaðnum í morgun en þrátt fyrir það má segja að afmælisveislan hafi að nokkru leyti farið fram í skugga Klaustursmálsins svokallaða.

Fjölmiðlamenn á staðnum skófluðu í sig kökunni og hófust svo þegar handa við að óska eftir viðtölum við hina ýmsu ráðherra um Klaustursupptökurnar. Ráðherrar brugðust vel við þeim óskum og veittu fjölmiðlum viðtöl samviskusamlega hver á fætur öðrum.

Að viðtölum og myndatökum loknum héldu ráðherrar svo upp á aðra hæð Ráðherrabústaðarins og héldu ríkisstjórnarfundinum áfram.

Ljóst er að mikið þarf að ræða enda stór mál verið í deiglunni síðustu daga og þá verður 100 ára fullveldi Íslands fagnað á morgun þar sem Fullveldishátíð verður m.a. haldin í Hörpu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert