„Rosalega súr stemning í þinginu“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, telur eðlilegast að máli þingmannanna …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, telur eðlilegast að máli þingmannanna sex sem töluðu með niðrandi hætti um samstarfsmenn sína á bar í síðustu viku verði vísað til siðanefndar Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, telur að besta nálgunin á máli þingmannanna sex sem töluðu með niðrandi hætti um samstarfsmenn sína á bar í síðustu viku sé að virkja siðnefnd Alþingis í fyrsta sinn. Frá þessu greindi hún í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

„Ég hef ekki alveg tilfinningu fyrir því en þeir sem ég hef talað við hafa tekið undir það,“ segir Þórhildur Sunna í samtali við mbl.is, aðspurð hvort það sé vilji meirihluta þingheims að vísa málinu til siðanefndar.

Forsætisráðherra tilkynnti í morgun að forsætisnefnd muni fjalla um málið, en þaðan er hægt að vísa því til siðanefndar. Þórhildur Sunna segir það rétt skref og telur óeðlilegt að forsætisnefnd fjalli frekar um málið þar sem nokkrir þingmenn sem tengjast málinu sitja í forsætisnefnd. „Á Inga Sæland að leggja mat á það hvort að þessi framkoma sé brot á siðareglum?“ spyr Þórhildur Sunna, en Inga er áheyrnarfulltrúi í nefndinni. „Þetta snertir okkur öll svo beint.“

Siðanefnd Alþingis var skipuð í febrúar 2017 af forsætisnefnd Alþingis sem ráðgefandi nefnd. Formaður nefndarinnar er Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis, og ásamt henni eiga Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Salvör Nordal, heimspekingur og umboðsmaður barna. Skipunartími þeirra er fimm ár.  

Gunnar Bragi og Bergþór mættu ekki á Bessastaði

Þórhildur Sunna segir að síðasti rúmi sólarhringur hafi komið störfum þingsins í uppnám og að erfitt sé að sjá fyrir hvernig næstu dagar muni þróast. Þá segir hún að andrúmsloftið í árlegri þingmannaveislu á Bessastöðum í gær hafi verið sérstakt.  

„Það var frekar sérstakt, en líka alveg gaman, það er alltaf gaman að heimsækja Guðna, hann er frábær gestgjafi, en það er mjög skrýtið að deila þarna rými með fólki sem er nýbúið að tala svona illa um sitt samstarfsfólk án þess að því er virðist að það sjái mikið eftir því,“ segir hún.  

Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólafsson, þingmenn Miðflokksins, tveir þeirra sem ræddu samstafsfólk sitt á barnum Klaustri, mættu ekki í veisluna og staðfestir Sunna að svo sé.

„Algjörlega ólíðandi framkoma“ 

Aðspurð hvort sexmenningarnir eigi að segja af sér vegna framkomu sinnar svarar Þórhildur Sunna játandi. „Mér finnst alla vega að þeir eigi alvarlega að íhuga það. Þetta er algjörlega ólíðandi framkoma sem sæmir ekki kjörnum fulltrúum. Mannfyrirlitningin sem þeir létu frá sér þarna er ekki til eftirbreytni.“

Hvernig málið þróast á eftir að koma í ljós en boðað hefur verið mótmæla á Austurvelli á morgun, á 100 ára af­mæli full­veld­is Íslands, und­ir yf­ir­skrift­inni „Klaust­urs-þing­menn til ábyrgðar - Mót­mæl­um ósiðlegu fram­ferði!“ Á sama tíma verður opið hús á Alþingi.

„Mér fannst það tilhlökkunarefni og finnst það alveg enn þá en það er mjög skrýtið að hugsa til þess að opna húsið núna þegar það virðist vera rosalega súr stemning í þinginu. Aðallega finnst mér leitt að hugsa til þess að við búum við þær aðstæður þar sem þessir tilteknu þingmenn ætlast til þess að þessar konur sem þeir töluðu svona ógeðslega um eigi bara að halda áfram að vinna með þeim eins og ekkert sé, deila með þeim vinnustað og vera með þeim á fundum, veislum og samkomum,“ segir Þórhildur Sunna.

Varðandi starf minnihlutans á þingi segir hún að það verði að skýrast þegar Miðflokkurinn og Flokkur fólksins verði búnir að leysa úr sínum málum. „En Píratar munu hvergi slá af sínu eftirlitshlutverki gagnvart ríkisstjórninni þótt að þetta mál hafi komið okkur eins og öllum öðrum á þingi í uppnám, þá hættum við ekki að vinna vinnuna okkar.“  

Uppfært: Í upphaflegri frétt var vísað í frétt Vísis um að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hafi komið þeim skilaboðum til Gunnars Braga og Bergþórs að nærveru þeirra væri ekki óskað. Samkvæmt Steingrími er það rangt og hafa fréttir mbl.is og Vísis verið lagfærðar samkvæmt því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert