Tekur tíma að vinna úr áfallinu

Gunnar Bragi Sveinsson á Alþingi.
Gunnar Bragi Sveinsson á Alþingi. mbl.is/Hari

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, hefur sent frá sér yfirlýsingu. Hann segist hafa sýnt mikið dómgreindarleysi á barnum Klaustri. Málið hafi verið sér mikið áfall og það muni taka hann tíma til að vinna úr því með vinum og fjölskyldu.

„Ég harma að hafa sært samstarfsfélaga mína og fleiri og tek ábyrgð á hegðun minni. Vil ég þó segja að mistök gerum við manneskjurnar víst og er öllu jafna auðveldara að dæma en að fyrirgefa.

„Sá yðar er syndlaus er kasti fyrsta steininum“ Ég mun hafa það í huga hér eftir og hvet ykkur til þess sama,“ skrifar Gunnar Bragi.

Hann biðst jafnframt fyrirgefningar og kveðst ætla að taka sér leyfi frá þingstörfum.

Yfirlýsingin í heild sinni:

Fyrir tíu dögum sýndi ég mikið dómgreindarleysi og hafði uppi orð sem eru engum sæmandi. Það var mér mikið áfall að sjá hvaða orðfæri ég viðhafði og mun taka mig tíma að vinna úr því með vinum og fjölskyldu. Ég harma að hafa sært samstarfsfélaga mína og fleiri og tek ábyrgð á hegðun minni. Vil ég þó segja að mistök gerum við manneskjurnar víst og er öllu jafna auðveldara að dæma en að fyrirgefa. „Sá yðar er syndlaus er kasti fyrsta steininum“ Ég mun hafa það í huga hér eftir og hvet ykkur til þess sama.

Ég vona að hlutaðeigandi fyrirgefi mér þessa hegðun en vegna hennar hef ég ákveðið að taka mér leyfi frá þingstörfum.

Gunnar Bragi.

mbl.is

Bloggað um fréttina