Þekkt eldfjöll eru að búa sig undir eldgos

Eldgos í Grímsvötnum.
Eldgos í Grímsvötnum. mbl.is/RAX

Fjögur íslensk eldfjöll sýna nú hegðun sem gæti á endanum leitt til eldgosa, að mati Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings. Þau eru Hekla, Bárðarbunga, Grímsvötn og Öræfajökull. „Þessi eldfjöll eru mælanlega að þenjast út. Kvikuþrýstingur fer vaxandi í þeim samkvæmt mælingum,“ sagði Páll. Hann sagði ómögulegt að segja hvert þessara eldfjalla gýs næst.

„Grímsvötn hafa verið í ákveðnum ham síðan í gosinu 1983. Það verður þensla í fjallinu, svo sígur það þegar gýs og byrjar strax aftur að tútna út,“ sagði Páll. Grímsvötn gusu síðast 2011 stóru gosi. Þar áður gusu þau 2004 og 1998. Gjálpargosið 1996 varð mjög nálægt Grímsvötnum en ekki er fullljóst hvort það var fóðrað úr Grímsvatnaeldstöðinni eða Bárðarbungu. Þar áður gusu Grímsvötn 1983 og höfðu þá ekki gosið síðan árið 1934. Frá því að land byggðist hafa Grímsvötn gosið um 65 sinnum.

Langtímaforboðar sýna sig

„Það sem við sjáum núna í Grímsvötnum og eins í Öræfajökli, Bárðarbungu og Heklu er langtímaforboði. Fjöllin eru að undirbúa gos og ef þessi undirbúningur heldur áfram þá verða eldgos í fyrirsjáanlegri framtíð. Þau gætu allt eins hætt við og það eru þekkt dæmi um að eldfjöll hafi hætt við í miðjum klíðum.“

Öræfajökull hefur þanist talsvert frá áramótum 2016-2017.
Öræfajökull hefur þanist talsvert frá áramótum 2016-2017. mbl.is/RAX

Segja má um Heklu að hún sé komin fram yfir sig í undirbúningnum. Páll telur ekki útilokað að Grímsvötn geri eitthvað svipað. „Þetta þekkjum við úr Kröflu. Hún gerði þetta stundum að hún reis umfram það sem hún hafði gert þegar áður höfðu komið gos,“ sagði Páll. Hann segir að skjálftavirkni bendi til þess að þensla sé í Bárðarbungu og GPS-mælingar bendi einnig til þess. Það fari því varla á milli mála að þrýstingur sé að vaxa undir Bárðarbungu. Hins vegar hafi Holuhraunsgosið 2014 verið stór atburður og öskjuhrunið sem fylgdi geti orðið til þess að eldstöðin verði lengi að ná upp þrýstingi að nýju. „Öll þróun sem við sjáum nú bendir þó til þess að Bárðarbunga sé að safna fyrir næsta gosi,“ sagði Páll.

Sigketill í Bárðarbungu.
Sigketill í Bárðarbungu. mbl.is/RAX

„Hafa ber í huga að þessar eldstöðvar eru allar mjög fjölhæfar. Við föllum stundum í þá gryfju að gera ráð fyrir því að næsta gos verði eins og það síðasta. Þetta er sérstaklega varasamt í sambandi við Kötlu. Við erum alltaf að horfa á gosið 1918 og ímynda okkur að næsta gos verði þannig. Katla gæti verið í allt öðrum hugleiðingum.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »