Metnaðarleysi fyrir tungumálinu

Íslenska er þjóðartunga Íslands og opinbert mál á Íslandi. Undanfarin misseri hefur skiltum og merkingum á enskri tungu fjölgað gífurlega mikið í miðborg Reykjavíkur. Eftirtekt vekur að á mörgum stöðum eru skilti einungis á ensku og ekki á íslensku.

Á fullveldisdegi Íslands í fyrra spurði Guðni Th. Jóhannesson í ræðu sinni. „Getur sú þjóð talist fullvalda sem glatar tungu sinni, sögu og menningararfi?“

Í tilefni af fullveldisdegi fór Mbl.is því á stúfana um hvort það væri einhver stefna til hvað allar þessar merkingar á ensku varðar hjá íslenskum stjórnvöldum. 

Óheppileg þróun

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, situr í Íslenskri málnefnd. Hann segir í samtali við mbl.is að þessi þróun sé óheppileg. 

„Þetta sýnir ákveðið metnaðarleysi fyrir tungumálinu. Það er ljóst að það er hér mikill fjöldi fólks sem skilur ekki íslensku og það er sjálfsögð og eðlileg þjónusta að alls konar skilti séu á ensku, en það á ekki að þýða það að íslenskan þurfi að víkja, og hún á að vera fyrst.“

Spurður hvort honum finnist að það þurfi að hafa einhver lög um þessar merkingar segist hann ekki hlynntur mörgum boðum og bönnum. „En það væri vænlegt að vekja athygli á þessu og benda fólki á að þetta skiptir máli fyrir íslenskuna og hvers vegna það skiptir máli. Íslenskan á sér bjarta framtíð en við verðum að vilja það, og sýna þann vilja í verki.“ 

Disneyland fyrir túrista

Júlía Margrét Einarsdóttir rithöfundur bæði býr og vinnur í miðborg Reykjavíkur og segist hafa tekið eftir þessu og finnast þetta leiðinleg þróun. „Maður hefur orðið fyrir þessu sjálfur að koma til erlendra borga þar sem allt er á ensku og er orðið að einhvers konar Disneylandi fyrir túrista og þar sem raunveruleiki þeirrar menningar sem var á staðnum er horfinn.“ Hún segir að þegar hún sjálf fari til útlanda sé hluti af upplifuninni að heyra og sjá tungumálið skrifað en ekki sjá allt á ensku. 

Þegar Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra er spurð út í þetta málefni kemur í ljós að hún mun á næstunni leggja fram þingsályktunartillögu um að efla íslensku sem opinbert mál hér á landi. Liður í henni sé vitundarvakning um mikilvægi, fjölbreytni og sérstöðu íslenskunnar: „Jákvætt viðhorf til tungumálsins og aukin meðvitund mun skipta miklu til þess að tryggja áframhaldandi notkun íslensku á öllum sviðum samfélagsins,“ segir ráðherra.  Vitundarvakningin verði unnin í víðtæku samstarfi, meðal annars við ferðaþjónustuna, um aðgerðir og hugmyndir. Í þingsályktunartillögunni er einnig lagt til að sett verði viðmið fyrir stjórnvöld og atvinnulíf um notkun íslensku og annarra tungumála í upplýsinga- og kynningarefni.


Ferðamenn vilja líka merkingar á íslensku

„Ég vil að við förum yfir þetta markvisst og snúum þessu við,“ segir ráðherra. „Fólk er ósátt við þessa þróun. Ég hef til að mynda sent bréf til stjórnar Isavia varðandi merkingar á flugvellinum sem þeir hafa hug á að laga. Ferðamenn vilja líka merkingar á íslensku og við eigum að halda í okkar séreinkenni. Það er mjög eðlilegt að við höfum merkingar bæði á íslensku og ensku, en höfum íslenskuna alltaf fyrst.“

En er hægt að neyða einkaaðila til að vera með merkingar á íslensku?  „Við byrjum á ákveðinni vitundarvakningu og munum fara í samstarf við ferðaþjónustuna um hana," segir Lilja. „Við viljum hafa þetta jákvætt og hvetja fólk, vekja það til umhugsunar um hversu mikilvæg íslenskan er. Því sú þjóð sem glatar tungu sinni hún glatar sjálfi sínu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert