20 þúsund manns á ráðstefnu í Póllandi

COP-ráðstefnan er haldin ár hvert til að skerpa á reglugerðum …
COP-ráðstefnan er haldin ár hvert til að skerpa á reglugerðum í Parísarsamningnum. AFP/Eric Feferberg

Fulltrúar 200 þjóða eru samankomnir í Katowice í Póllandi á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP24. Á dagskrá eru loftslagsbreytingar. Áætlað er að 10-20 þúsund manns komi til borgarinnar í tengslum við hana, en þetta er stærsta ráðstefna sem Sameinuðu þjóðirnar halda ár hvert.

Í aðdraganda ráðstefnunnar hafa ýmsar rannsóknir verið birtar sem sýna fram á geigvænlega þróun í loftslagsmálum. Umhverfisráð Sameinuðu þjóðanna birti skýrslu á þriðjudaginn sem sagði að árið 2017 hafi verið slegið met í losun gróðurhúsalofttegunda. Þá benti veðurstofa Sameinuðu þjóðanna í gær á sífellt hækkandi meðalhita á jörðinni.

Verið er að ganga frá ýmsum reglugerðum í Parísarsamningnum, þar á meðal þeim sem snúa að bókhaldinu sem hverri þjóð ber að halda utan um. Markmið sáttmálans liggja fyrir en enn á eftir að skrifa ákvæði um hvernig þeim er fylgt eftir nákvæmlega.

„Reglurnar þurfa að vera passlegar“

Helga Barðadóttir, sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu, er stödd í Katowice og segir ráðstefnuna skipta miklu máli. „Þetta regluverk sem menn eru nú að vinna að mun skera úr um hvort samningurinn ber árangur þann sem skyldi. Reglurnar þurfa að vera passlega strangar og þeim verður að fylgja eftir með bókhaldi og skýrslugjöfum,“ segir Helga.

Þannig er verið að fínpússa reglugerðir samningsins, þær sem snúa að því hversu miklar skyldur hver þjóð hefur til þess að gera skýrslur og halda skipulagt bókhald um t.d. losun gróðurhúsalofttegunda.

Parísarsamningurinn var gerður 2015. Síðan þá hefur þessi ráðstefna verið haldin ár hvert og umfjöllunarefnið verið þetta: að festa í sessi reglugerð þá sem þarf til að ákvæðum samningsins sé fylgt eftir. Það markmið er að koma í höfn, segir Helga.

Ráðstefnan stendur í tvær vikur, frá 2-14. desember, og í seinni vikunni mæta ráðherrar landanna. Þar á meðal Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.  Þá tínast í vikunni fleiri Íslendingar til Katowice, meðal annars frá ýmsum félagasamtökum.

Ungir umhverfissinnar taka þátt

Ungir unhverfissinnar verða á loftslagsráðstefnunni og kalla í tilkynningu eftir því að unnið sé að sjálfbærri þróun á heildstæðari hátt, með áherslu á tengsl þessa þrenns: loftslagsmála, lífbreytileika og menningarlegs jafnréttis.

Í tilkynningunni benda Ungir umhverfissinnar á viðtal við m.a. formann þeirra um frumkvæði þeirra að stofnun alþjóðlegs tengslanets ungmenna um Norðurslóðir. Hér má lesa  meira um ályktanir þeirra um ráðstefnuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert