Eins og blaut tuska inn í Me Too

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/​Hari

Sigurður Ingi Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, segir að samræður þingmanna á bar nýverið sé eins og blaut tuska inn í þá umræðu sem verið hefur í kjölfar Me Too fyrir ári síðan.

Hann segir að vissulega þannig að þingið þurfi að skoða þessi mál en ábyrgðin sé á herðum þeirra sem þarna voru, það er á Klaustri. Hann segir að sumt hafi ekki komið honum á óvart af því sem hann hafi heyrt af orðræðunni á barnum. En kannski hversu ljót hún var og að menn hafi getað setið í þrjár klukkustundir og farið með þessa mann- og kvenfyrirlitningu sé ótrúlegt.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að það skipti máli að konur fái að vera öruggar á sínum vinnustað og að vinnustaðamenningin á þingi sé ekki alltaf góð. Hún vísaði í jafnréttislög og kynbundna áreitni. Hún segir að það megi alveg skoða það hvort jafnréttislög eigi ekki við um konur á Alþingi. 

Hún vill að siðanefnd komi saman og fjalli um málið og hún segir að ungir karlar noti ekki orðbragð eins og viðhaft var á barnum. 

Sigurður Ingi segir óhjákvæmilegt að þetta muni hafa afleiðingar og ekki sé vitað á þessari stundu hverjar þær verða.

Þetta kom fram í viðtali við þingmennina í þætti Kristjáns Kristjánssonar, Sprengisandi, á Bylgjunni í morgun.

mbl.is