Haframjólk í gámavís í hverri viku

Sænsku Oatly-hafravörurnar eru vinsælar á Íslandi. Mun fleiri jurtamjólkurvörur eru …
Sænsku Oatly-hafravörurnar eru vinsælar á Íslandi. Mun fleiri jurtamjólkurvörur eru fáanlegar.

Vinsældir haframjólkur, drykkjar úr höfrum sem hafa verið gegnbleyttir í vatni, hafa vaxið gríðarlega hér á landi síðasta árið. Haframjólk er ekki lengur aðeins keypt af þröngum hópi „sérvitringa“ heldur hinum almenna neytenda enda hægt að nálgast hana í flestum matvöruverslunum. Vinsældirnar tengjast bylgju lífsstílsbreytinga sem aftur tengjast meðal annars aukinni umhverfis- og dýravernd. Það eru þó alls ekki aðeins þeir sem kjósa að neyta ekki dýraafurða eða vilja minnka kolefnisspor sitt sem nota orðið haframjólk og aðrar hafravörur. 

En er þessi mikla haframjólkurneysla komin til að vera eða er um bólu að ræða sem að lokum mun springa? Og er haframjólkin eins holl og af er látið og getur hún komið í stað kúamjólkurinnar í mataræðinu? Það er að minnsta kosti víst að vegan-lífsstílinn er ekki hættulegur og að mannfólk getur vel komist af án þess að neyta dýraafurða.

Salan hefur margfaldast

Ýmsar aðrar jurtamjólkur eru fáanlegar, s.s. sojamjólk, möndlumjólk og hrísmjólk. Haframjólkin þykir hafa ákveðna eftirsótta eiginleika, s.s. að hún er ódýrari og einfaldari í framleiðslu og því aðgengilegri og þá eru margir á því að framleiðsla hennar sé umhverfisvænni en annarra vara af svipuðum meiði. Einnig er hún þykkari en margar aðrar jurtamjólkur og því kjörin út í kaffið eða á morgunkornið. Allt er þetta þó smekksatriði og vissulega margir sem kjósa aðrar tegundir jurtamjólkur.

„Síðastliðið ár hefur eftirspurnin eftir haframjólk margfaldast, hún er orðin gríðarleg,“ segir Jóhanna Ýr Hallgrímsdóttir, markaðsstjóri hjá Innnes, sem hefur síðastliðin tvö ár flutt inn hafravörur frá Oatly. Hún segir að viðbrögðin hafi strax verið ótrúleg og að ekki hafi verið búist við slíkri sprengingu. „Þegar við erum að fá allar vörurnar þá koma nokkrir gámar í viku. Það er alveg þannig!“

Bætiefni í mjólkinni

Um sænska framleiðsluvörur er að ræða sem unnar eru úr þarlendum höfrum. Jóhanna segir Innnes hafa valiðOatly til innflutnings m.a. vegna þess að fyrirtækið hafi þróað og öðlast einkarétt á framleiðsluaðferð sem tryggja eigi að öll næringarefni hafranna haldist í gegnum framleiðsluferlið. Þá eru vörurnar einnig kalk- og vítamínbættar. Einnig segir hún umhverfisstefnu fyrirtækisins góða en það reynir sífellt að minnka kolefnisspor sitt og gera umbúðir vistvænni.

Jóhanna Ýr Hallgrímsdóttir, markaðsstjóri hjá Innnes.
Jóhanna Ýr Hallgrímsdóttir, markaðsstjóri hjá Innnes.

En hvað skýrir þessar miklu vinsældir haframjólkur?

„Fólki er meira umhugað en áður um hvað það setur ofan í sig og hefur nú góðan aðgang að upplýsingum,“ segir Jóhanna. „Þannig getur það séð hvaðan vörur koma, hvaða hráefni er verið að nota. Neytendur vita orðið miklu meira um allt framleiðsluferlið. Margir vilja kanna þennan nýja valkost en aðrir þola einfaldlega ekki vel kúamjólkina og skipta í haframjólk af þeim sökum.“

Vinsæl allt árið um kring

Vinsældir haframjólkurinnar eru það miklar að Oatly hefur átt fullt í fangi með að svara eftirspurn hér á Íslandi sem og víðar og því hefur það komið fyrir að vörunar hafi verið ófáanlegar í verslunum um hríð. Nú horfir hins vegar til betri vegar hvað framboðið varðar.

Jóhanna segir að auk haframjólkur sé hægt að kaupa hafrajógúrt, hafrasmurost, hafrarjóma, sýrðan rjóma og hafraís frá Oatly. Mörgum finnist þessar vörur vel koma í stað kúamjólkurvara, hvort sem er út í kaffið eða í baksturinn. Margir byrja á að prófa kaffihaframjólkina en þróa svo neysluna áfram út í fleiri vöruflokka.

Eftirspurnin er enn að aukast að sögn Jóhönnu sem hún er sannfærð um að tengist vitundarvakningu meðal almennings. „Fyrst byrjaði fólk á að taka veganúar [vegan-lífsstíl í janúar] en ég tel þessar lífsstílsbreytingar almennt komnar til að vera. Þetta er ekki þessi tískubóla sem margir spáðu í fyrstu. Það er nú jöfn eftirspurn eftir haframjólk allt árið, hvort sem það eru jól eða janúar.“

Mismunandi tegundir -  mismunandi innihald

En hversu holl er haframjólk?

Framleiðendur haframjólkur halda því á lofti að hún innihaldi til dæmis lítið magn af glúteni og mettuðum fitusýrum. Þá innihaldi hafrar trefjar sem séu góðir fyrir meltinguna.

Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnastjóri næringar hjá embætti landlæknis, telur að með auknum vinsældum jurtafæðis í einhverri mynd komi hafravörur í auknum mæli inn á markað og geti hentað ákveðnum hópi neytenda.

Kúamjólk inniheldur joð sem er snefilefni og líkamanum nauðsynlegt.
Kúamjólk inniheldur joð sem er snefilefni og líkamanum nauðsynlegt.

 Hún bendir á að á markaði séu  mismunandi tegundir af haframjólk og innihald þeirra sé því ekki alltaf það sama. Í grunninn samanstendur haframjólk af vatni og höfrum. „Haframjólkin inniheldur lítið af próteini, meira af kolvetnum og lítið sem ekkert af vítamínum og steinefnum frá náttúrunnar hendi,“ segir hún um hvað greini haframjólkina frá kúamjólkinni. „Það er hins vegar búið að bæta til dæmis kalki og fleiri steinefnum og svo vítamínum í ýmsar tegundir haframjólkur og jafnvel jurtaolíu. Það þarf því að lesa vel á umbúðir þegar valin er vara.“

Er eitthvað sem ber að hafa gætur á ef kúamjólk er skipt út fyrir haframjólk?

„Það er mataræðið í heild sem skiptir máli,“ segir Hólmfríður. „Ef það er bara mjólk og mjólkurvörum sem er skipt út þá er hægt að fullnægja þörfinni fyrir kalk með til dæmis kalkbættum vörum.“

Getur komist af án dýraafurða

 Spurð hvort haframjólk henti öllum sem staðgengill kúamjólkur segir Hólmfríður hana ekki henta ungbörnum en að það geri kúamjólkin ekki heldur. „Mælt er með brjóstagjöf en fyrir þau börn sem ekki eru á brjósti eða fá ekki nóg er mælt með móðurmjólkurblöndu til hálfsársaldurs og svo stoðblöndu, til dæmis Stoðmjólk, eftir það ef börnin eru ekki á brjósti.“

 Mannskepnan getur komist af án dýraafurða. Hólmfríður bendir hins vegar á að eftir því sem fleiri fæðutegundir eru útilokaðar því mikilvægara sé að vanda vel valið og velja matvæli sem innihalda þau efni sem líkaminn þarf á að halda. „Ef mjólk og egg eru hluti af mataræðinu, ég tala nú ekki um fiskur, þá er þetta mun auðveldara en ef ekki er neytt neinna dýraafurða. Þeir sem ekki neyta neinna dýraafurða þurfa að taka B12 vítamín sem fæðubótarefni og einnig þarf að huga að joðinu og svo D-vítamíni eins og allir aðrir þurfa.“

Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri næringar hjá embætti landlæknis.
Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri næringar hjá embætti landlæknis.

 Hólmfríður segir að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af því að sífellt fleiri tileinki sér vegan-lífsstíl. Hann sé ekki hættulegur. Þeir sem neyti eingöngu jurtafæðis séu líklegir til að vera meðvitaðir um hvað þeir láti ofan í sig. „Ef fólk er vel meðvitað um hvað það er að gera og vandar vel valið á þetta ekki að þurfa að vera áhyggju efni,“ segir hún. „Það er sjálfsagt fyrir þá sem huga að því að breyta yfir í slíkt mataræði að leita sér aðstoðar t.d. hjá næringarfræðingi eða næringarráðgjafa áður en farið er af stað.“

Takmarka ætti neyslu á unnum matvörum

 Samkvæmt ráðleggingum embættis landlæknis um mataræði þá er meiri áhersla en áður á fæði úr jurtaríkinu sem er trefjaríkt frá náttúrunnar hendi til dæmis grænmeti, ávexti, heilkornavörur, baunir, linsur, hnetur, fræ og jurtaolíur en einnig á önnur matvæli sem eru rík af næringarefnum frá náttúrunnar hendi svo sem fisk, hreinar fituminni mjólkurvörur, kjöt í hófi og svo vatn til drykkar. Takmarka hins vegar neyslu á unnum matvörum sem innihalda oft mikið af mettaðri fitu, sykri eða salti, sem dæmi má nefna gosdrykki, sælgæti, kex, kökur, snakk skyndibita og unnar kjötvörur.

Hólmfríður segir að með því að fylgja ráðleggingum embættisins um matarærði sé auðveldara að tryggja að við fáum þau næringarefni sem við þurfum á að halda og stuðla að góðri heilsu og vellíðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert