Selahljóðin „líklega stóll að hreyfast“

Freyja frábiður sér frekari símtöl frá ófötluðum karlmönnum í valdastöðu …
Freyja frábiður sér frekari símtöl frá ófötluðum karlmönnum í valdastöðu sem tala niður til hennar.

„Hann hringdi til að biðjast afsökunar og jafnframt útskýra fyrir mér hvernig ég virtist hafa misskilið þetta allt,“ skrifar Freyja Haraldsdóttir um símtal sem hún fékk frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í dag.

„Í stuttu máli útskýrði hann fyrir mér að þau orð sem hefðu verið látin falla væru ekki fötlunartengd, eða til þess ætluð að gera grín að fötlun minni, heldur hefðu þau fallið vegna þess að pólitískar skoðanir mínar færu mjög í taugarnar á Gunnari Braga Sveinssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra, „og fleirum“.“

Pistill Freyju birtist á Kjarnanum, en þar segir hún undanfarna daga hafa verið sér erfiða, nógu erfiða til þess að hún treysti sér ekki á Austurvöll í gær, en þar hafi komið fram að enginn þingmaður sem sat á Klaustri bar hafi beðið hana afsökunar. Á Klaustursupptökunum svokölluðu má meðal annars heyra þingmenn líkja eftir sel þegar minnst er á Freyju og hún uppnefnd Freyja eyja.

Freyja eyja uppnefni á vegg á skrifstofu Miðflokksins

„Hann útskýrði að sela­hljóðin hefðu lík­lega verið stóll að hreyfast og að upp­nefnið Freyja eyja hefði orðið til­ þegar fjar­lægja þurfti vegg (sem hann kall­aði eyju) af skrif­stofu Mið­flokks­ins vegna aðgeng­is. Vegg­ur­inn hefði þá fengið þetta við­ur­nefni.“

Freyja segir að ekki sé um afsökunarbeiðni að ræða þegar beðist sé afsökunar en samtímis reynt að hrútskýra, eftiráskýra og hreinlega ljúga til um það sem átti sér stað.

Að líkja henni við dýr og uppnefna hana, og vegg, Freyju eyju, í kjölfar aðgengisbreytinga sé augljóslega eins fötlunartengt og það geti orðið.

Frábiður sér frekari símtöl 

„Að taka mig fyrir með þessum hætti vegna þess að póli­tískar skoð­anir mín­ar, sem byggjast á fem­inískum gild­um, hug­mynda­fræði mann­rétt­inda og upp­ræt­ingu ableis­ma, fara í taug­arnar á sumum körlum, ER fötl­un­ar­fyr­ir­litn­ing og kven­fyr­ir­litn­ing. Það er líka hlut­gerv­ing. Ég er ekki bara eins og dýr heldur líka dauður vegg­ur. Það er til þús­und og ein leið til þess að tjá skoð­ana­á­grein­ing önnur en að hæð­ast að lík­ama og útliti kvenna.“

Freyja frábiður sér frekari símtöl þar sem ófatlaður karlmaður í valdastöðu talar niður til hennar og reynir að útskýra fyrir henni hvað fötlunarfordómar séu og hvað ekki.

Hér er pistill Freyju í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina