Viðbrögð Sigmundar ofbeldiskennd

Jón Trausti Reynisson fór ófögrum orðum um aðferðir Sigmundar Davíðs …
Jón Trausti Reynisson fór ófögrum orðum um aðferðir Sigmundar Davíðs við að grafa undan fjölmiðlum. Hann og Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar voru meðal gesta í Silfrinu hjá Fanneyju Birnu á RÚV í morgun. Skjáskot/RÚV.

„Fyrstu viðbrögð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eru svolítið kunnugleg. Það er, að ráðast á fjölmiðla,“ segir Jón Trausti Reynisson ritstjóri Stundarinnar í Silfrinu á RÚV í morgun. Hann lýsti áhyggjum sínum af orðræðu Sigmundar í tengslum við Klausturupptökurnar.

„Það er bara ár síðan við fengum yfirvöld inn á ritstjórnarskrifstofuna hjá okkur,“ segir hann og vísar til lögbanns sýslumanns á Stundina. „Þannig að nú þegar við erum ári síðar að fjalla um erfið mál í stjórnmálum, þá kallar stjórnmálamaður beinlínis eftir því að yfirvöld fari í okkur. Það er auðvitað óþægilegt og svona hálfpartinn ofbeldiskennt.“

„Sami stjórnmálamaður hefur gert það að sinni helstu taktík, að hjóla í RÚV og koma fram með samsæriskenningar um RÚV og aðra fjölmiðla,“ segir Jón Trausti.

„Hann byrjar strax að vísa í tilfelli frá Bretlandi þar sem fjölmiðlar voru saksóttir vegna hlerunarmála,“ segir Jón Trausti. „Þetta er einkenni á mjög óheilbrigðu ferli í umræðu í stjórnmálum, þegar stjórnmálamenn taka að skjóta sendiboðann.“

Þannig gerir Jón Trausti alvarlega athugasemd við viðbrögð Sigmundar, sem snúa að því að því þegar stjórnmálamenn „gengisfella gagnrýni“ með þessum hætti. Jón segir þó að kerfið verði að vera svona, að fjölmiðlar verði að fá að starfa og veita stjórnvöldum aðhald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert