„Það var ekki hægt að velja verri tíma“

Airport Associates er þjónustuaðili WOW air á Keflavíkurflugvelli.
Airport Associates er þjónustuaðili WOW air á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert

„Þetta er auðvitað mjög erfitt og alvarlegt. Fólk streymir hingað til okkar að óska eftir upplýsingum. Við erum að veita stuðning og upplýsa fólk um rétt sinn. Hvað gerist nú og fleira. Það eru ekki allir sem eru með þessar upplýsingar á hreinu, sérstaklega ekki erlendir starfsmenn. Þeir eru ekki mjög fróðir um íslenskan vinnumarkað.“ Þetta segir Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis.

237 starfsmönnum Airport Associates, þjónustuaðila WOW air á Keflavíkurflugvelli, var sagt upp í síðustu viku. Þá var á annan tug sagt upp hjá WOW air og fleiri fyrirtæki hafa sagt upp starfsfólki vegna óvissu.

Eftir að fallið var frá kaupum Icelandair á WOW air í síðustu viku var tilkynnt að Indigo partners hygðist fjárfesta í flugfélaginu en aðeins hefur verið gert bráðabirgðasamkomulag á milli félaganna. Í tilkynningu frá WOW air kom fram að vonir stæðu til að hægt yrði að ganga frá kaupunum sem fyrst.

Blekið ekki þornað á ráðningarsamningum

Kristján segir langstærstan hluta þess hóps sem sagt hefur verið upp, vera fólk af Suðurnesjum, eða allt að 99 prósent. „Flestir í félaginu hjá okkur,“ bætir hann við. Um er að ræða bæði Íslendinga og erlenda starfsmenn, en fyrirtækin hafa töluvert sótt vinnuafl til Póllands, að sögn Kristjáns.

„Það sem er kannski sérstakt í þessu er að mjög stór hluti af þessum hópi var að fá fastráðningu, í október og nóvember, eftir að hafa verið í sumarráðningu. Blekið er ekki þornað á fastráðningarsamningnum þegar uppsagnarbréfið kemur.“

Kristján segir menn uggandi vegna stöðunnar og vonast til að …
Kristján segir menn uggandi vegna stöðunnar og vonast til að einhverjar uppsagnir verði dregnar til baka. mbl.is/G.Rúnar

Kristján segir alla fá sömu móttökur á skrifstofunni hjá þeim, en margir hafi farið beint í að skrá sig á atvinnuleysisbætur.

Hann segir uppsagnirnar koma á versta tíma, rétt fyrir jól. „Fólk er að undirbúa jólin, versla jólagjafir og annað. Að fá svona uppsagnabréf er bara mikið áfall. Það var ekki hægt að velja verri tíma heldur en þennan.“

Hann vonast til að viðræður Indigo og WOW air gangi vel og að uppsagnirnar gangi til baka að einhverju leyti.

Stefnir aftur í Íslandsmeistaramet í atvinnuleysi

„Þessi vika verður mjög afdrifarík í þessari sögu. Við höfum í gegnum árin fengið mjög mikið atvinnuleysi, en síðustu þrjú ár hafa verið okkur einkar hagfelld. Við höfum ekki verið Íslandsmeistarar í atvinnuleysi á þeim tíma, en það stefnir að við náum því meti aftur, því miður.“

Hvað sem verður, hvort sem einhverjar uppsagnir verða dregnar eða ekki, eru menn uggandi vegna augljóss samdráttar. WOW air fækkaði til að mynda um fjórar vélar í flota sínum um daginn. Slíkt hefur mikil áhrif, að sögn Kristjáns. „Það eru allir á tánum. Ég ætla ekki að segja að ég kvíði næstu mánaðamótum, en þá verður vonandi búið kalla sem mest af þessum uppsögnum til. Hvernig sem þetta fer þá er kominn ákveðinn samdráttur. Það hefur áhrif þegar fjórar flugvélar eru farnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert