Flestir vilja sexmenningana burt

Flestir vilja að Gunnar Bragi Sveinsson hætti þingmennsku.
Flestir vilja að Gunnar Bragi Sveinsson hætti þingmennsku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á milli 74% og 91% aðspurðra í könnun Maskínu eru hlynntir afsögn alþingismannanna sex sem sátu við drykkju á barnum Klaustri 20. nóvember.

Flestum, eða 91% aðspurðra, finnst að Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Miðflokksins eigi að segja af sér en næstum jafn háu hlutfalli finnst að Bergþór Ólason eigi einnig að gera það.

Rétt innan við þremur af hverjum fjórum finnst að Anna Kolbrún Árnadóttir eigi að segja af sér þingmennsku og er það lægsta hlutfallið. Konur eru hlynntari afsögn en karlar en 8 til 16% þeirra sem eru eldri en 50 ára eru andvíg því að þingmennirnir segi af sér. Talan er 2 til 10% í öðrum aldurshópum.

Langlægsta hlutfall þeirra sem kusu Miðflokkinn í síðustu alþingiskosningum kalla eftir afsögn sexmenninganna.

Rúmlega 61% þeirra sem svöruðu hefur aldrei orðið vitni að umræðu líkt og þeirri sem umræddir þingmenn tóku þátt í á síðastliðnum tólf mánuðum. Rúmlega 8% hafa oft orðið vitni að sams konar umræðu. Íslendingar á aldrinum 18 til 29 ára eru líklegastir til að hafa orðið vitni að slíkri umræðu og fólk 60 ára og eldra ólíklegast.

Svarendur voru 1.311 og voru þeir af báðum kynjum, alls staðar af landinu á aldrinum 18 ára og eldri. Könnunin fór fram dagana 30. nóvember til 3. desember.

mbl.is