Mega ekki kasta rýrð á Alþingi

mbl.is/Ómar

Kallað hefur verið eftir því að siðanefnd Alþingis verði kölluð saman til þess að fjalla um mál nokkurra þingmanna sem á dögunum sátu að drykkju á bar í miðborg Reykjavíkur þar sem farið var farið var ljótum orðum einkum um ýmsa samþingmenn þeirra, en ummælin náðust á upptöku sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum að undanförnu.

Skipað var í siðanefndina, sem er ráðgefandi fyrir forsætisnefnd Alþingis, til fimm ára í febrúar á síðasta ári en hana skipa Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis, Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands og lektor í heimspeki við Háskóla Íslands. Ásta Ragnheiður er formaður nefndarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Alþingi er siðanefndinni ætlað að veita álit sitt á því hvort þingmaður hafi með hátterni sínu brotið gegn hátternisskyldum sínum og meginreglum um hátterni samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn.

Meðal þess sem fram kemur í siðareglunum er að alþingismenn skuli rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika, kasta ekki rýrð á þingið eða skaða ímynd þess með framkomu sinni. Þá skulu þingmenn í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu. 

mbl.is