Rannsakað sem mögulegt siðabrotamál

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, greindi frá því við upphaf þingfundar á Alþingi í dag að mál þingmanna, sem viðhöfðu gróft orðlag um samþingmenn sína og aðra á bar í miðborg Reykjavík á dögunum, væri komið í viðeigandi farveg hjá forsætisnefnd þingsins sem mögulegt siðabrotamál. Þetta kom fram í yfirlýsingu sem hann las upp.

Steingrímur greindi einnig frá því að forsætisnefnd hefði í hyggju að leita ráðgefandi álits siðanefndar Alþingis. Þá bað forseti Alþingis aðra þingmenn en þarna komu að máli, aðstandendur þeirra, starfsmenn þingsins, konur, fatlaða, hinseigin fólk og þjóðina alla afsökunar fyrir hönd þingsins. Steingrímur sagði sér nauðugur sá kostur en um leið rétt og skylt að fara nokkrum orðum um málið enda hafi það vakið útbreidda og eðlilega hneykslun.

„Orðbragð sem þarna virðist sannarlega hafa verið viðhaft er óverjandi og óafsakanlegt. Ekki síst er það með öllu óverjandi og úr takti við nútímalega viðhorf hvernig þarna var fjallað um konur og hlut kvenna í stjórmálum og einnig fatlaða og hinsegin fólk. Það er löngu tímabært og lýðræðiskipulaginu lífsnauðsynlegt í nútímanum að útrýma öllu ómenningartali af þessu tagi úr stjórnmálum og þar verðum við öll að leggja okkar að mörkum.“

Steingrímur sagðist líta svo á að trúverðugleiki Alþingis, sem að sjálfsögðu bæri þó ekki ábyrgð sem slíkt á „óráðshjali þingmanna utan veggja þinghússins heldur þeir sjálfir“, lægi engu að síður í því að tekið væri á málinu í fullu samræmi við alvarleika þess. Sagðist hann heita því að það yrði gert. Málið væri þegar komið í farveg af hálfu forsætisnefndar. Tekin hafi verið ákvörðun um það á fundi nefndarinnar sem fram fór í dag.

„Að öðru leyti vonar forseti og óháð þessu að við getum sinnt okkar störfum og rækt okkar skyldur sem mest ótruflað af þessum ólánsatburði. Lífið heldur áfram og það gera störf Alþingis Íslendinga einnig. Forseti fer fram á að við hlífum okkur sjálfum og þjóðinni við umræðum um þetta að öðru leyti hér í þingsal að svo stöddu. Samkvæmt lögum, reglum og stjórnskipulagi Alþingis heyra mál af þessu tagi undir forsætisnefnd og þar er málið þegar á dagskrá eins og áður sagði. Forseti vill að lokum upplýsa að yfirlýsing þessi er flutt að undangengnu samráði við formenn allra þingflokka.“

Bókun forsætisnefndar Alþingis:

„Forsætisnefnd hefur fengið til meðferðar erindi Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur, Andrésar Inga Jónssonar, Hönnu Katrínar Friðriksson, Helgu Völu Helgadóttur, Helga Hrafns Gunnarssonar, Jóns Steindórs Valdimarssonar, Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur og Þorsteins Víglundssonar er lýtur að niðrandi ummælum þingmanna á bar 20. nóvember sl. um þingmenn og aðra þekkta einstaklinga í samfélaginu, og greint hefur verið frá í fjölmiðlum síðustu daga.

Forsætisnefnd ákveður að taka málið til athugunar vegna mögulegra brota á siðareglum fyrir alþingismenn. Einnig ákveður forsætisnefnd að óska þess að ráðgefandi siðanefnd komi saman til að undirbúa umfjöllun um málið og álit sem forsætisnefnd verði látin í té sem allra fyrst í samræmi við 4. og 16. gr. siðareglna fyrir alþingismenn, sbr. ályktanir Alþingis 23/145 og 18/148. Hlutverk siðanefndarinnar er samkvæmt 1. mgr. 16. gr. að láta í té álit sitt á því hvort þingmaður hafi með hátterni sínu brotið gegn hátternisskyldum sínum og meginreglum um hátterni, sbr. 5. gr. siðareglna fyrir alþingismenn.

Jafnframt samþykkir forsætisnefnd að afla nánari upplýsinga frá þeim þingmönnum sem lagt hafa fram erindið um nánari afmörkun, eftir því sem þörf krefur, svo að leggja megi það formlega fyrir siðanefnd, sbr. reglur um meðferð erinda og málsmeðferð samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn. Enn fremur mun forsætisnefnd beina því til þeirra sex alþingismanna sem umfjöllunin hefur snúið að, að frá þeim komi skrifleg greinargerð þeirra um málið í samræmi við 2. og 3. mgr. 17. gr. siðareglnanna.

Forsætisnefnd felur forseta, og eftir atvikum skrifstofu þingsins, að ganga svo frá málum næstu daga að erindið fái sem skjótasta meðferð í siðanefndinni þannig að forsætisnefndin geti tekið endanlega afstöðu til málsins eins og henni er skylt samkvæmt siðareglunum og þingsköpum Alþingis.

Hvað viðkemur ummælum fyrrverandi utanríkisráðherra um eigin embættisathafnir þá er um að ræða framkvæmdarvaldsathafnir sem snúa að ákvörðunum sem hann tók tveimur árum áður en siðareglur fyrir alþingismenn tóku gildi. Þá er ljóst að forsætisnefnd fjallar ekki um siðareglur ráðherra.“

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í ræðustól við upphaf þingfundar …
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í ræðustól við upphaf þingfundar í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert