Segist hafa gagnrýnt skipan Geirs Haarde

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/​Hari

Það var rangt með farið hjá Gunnari Braga Sveinssyni á Klausturbarnum að ég hafi ekki gagnrýnt skipan Geirs H. Haarde þar sem ég gerði það á sínum tíma opinberlega eins og auðvelt er að finna með einfaldri leit á netinu.“

Þetta kemur fram í Facebook-færslu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Fram kom í máli Gunnars Braga á Klaustri Bar að Árni Þór Sigurðsson, fyrrverandi þingmaður VG, hafi verið skipaður sendiherra árið 2014 til að draga athyglina frá skipan Geirs í sama embætti.

Gunnar Bragi sagði á Klaustri að hann teldi sig eiga eitthvað inni hjá Sjálfstæðisflokknum vegna þessa plotts en hefur síðar haldið því fram að ekkert sé hæft í þeim orðum. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt að Gunnar eigi ekkert inni hjá sér.

Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín skrifar að Gunnar Bragi hafi dregið nafn hennar inn í umfjöllun um meint plott hans en segir að hún hafi gagnrýnt skipan Geirs. „Ég taldi sérstakt að hann hefði verið skipaður sendiherra á vegum íslenskra stjórnvalda sem hann átti þá í málaferlum við. Aðrir þingmenn og fulltrúar Vinstri-grænna tjáðu sig reyndar líka um þessi mál,“ skrifar Katrín.

Forsætisráðherra segir einnig rangt að hún hafi verið upplýst um skipan Geirs fyrir fram. Hins vegar hafi Gunnar Bragi upplýst hana um skipan Árna Þórs en ekkert minnst á Geir í því samhengi. 

Ég kom ekki að þeirri ákvörðun og sóttist ekki eftir þessu starfi fyrir hönd Árna Þórs Sigurðssonar. Ég taldi að ákvörðun þáverandi utanríkisráðherra að upplýsa mig um ákvörðun sína hefði fyrst og fremst verið almenn kurteisi og mér til upplýsingar vegna stöðu Árna Þórs sem starfandi þingmanns í þingflokki Vinstri grænna. Skipan þessara sendiherra var á ábyrgð utanríkisráðherra eins og lög gera ráð fyrir.

mbl.is