„Þetta hljóð kemur úr mannshálsi“

Gunnar Smári hreinsaði hljóðið upptökunni til að betur mætti greina …
Gunnar Smári hreinsaði hljóðið upptökunni til að betur mætti greina það. mbl.is/Eggert

„Ég er sannfærður um það, frá mínum bæjardyrum séð, að þetta hljóð kemur úr mannshálsi. Ekki kannski mannsbarka, en þetta kemur úr manni,“ segir Gunnar Smári Helgason, hljóðmaður til 40 ára, sem hreinsaði hljóðið á Klaustursupptökunum svokölluðu, svo hægt væri að greina betur selahljóð sem einhver viðstaddur virðist gera þegar rætt er um Freyju Haraldsdóttur.

Freyja greindi frá því í pistli á Kjarnanum í gær að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og einn þeirra þingmanna sem heyrist í á upptökunum, hefði hringt í sig, beðist afsökunar og sagt að umrætt hljóð hefði komið frá stól.

„Það er stutt ískurslegt hljóð sem kemur, svipað og þegar maður er að búa til skrýtið hljóð með hálsinum. Ég hef ekki trú á því að þannig myndi ískur í stól byrja. Það myndi frekar byrja með einhverju þruski og magnast upp,“ segir Gunnar Smári.

Hann notaði forritið Waves E-Noise plug-in til að hreinsa hljóðið, en um að ræða forrit sem mikið er notað í tónlistarvinnslu og við hljóðsetningu á kvikmyndum. „Þetta er ekki notað til að breyta einhverjum staðreyndum heldur hreinsa upp hljóð,“ útskýrir hann, en það var vefmiðillinn Trölli.is  sem fyrst greindi frá niðurstöðum Gunnars Smára. Þar má heyra brot af upptökunni eftir að hann hreinsaði hana.

„Ég gerði ekki mikið fyrir hljóðið. Ég hreinsaði það aðeins upp. Það eru þarna hljóð í kælivélum og einhverju öðru sem ég gat dregið úr og skýrt hitt aðeins.“

Aðspurður segist hann hafa ákveðið að skoða upptökuna að eigin frumkvæði. Hann trúði því ekki að hljóðið kæmi frá stól og yfirferð hans á upptökunni staðfestir þá trú hans.

Hann segir sjálfsagt mega kafa dýpra í það, með því að hlusta hverjir tala fyrir og eftir, hver gefur hljóðið frá sér. Hann ætlar þó ekki að taka það verkefni að sér.

mbl.is