Anna Kolbrún var ekki ritstjóri Glæða

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins.
Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins. Ljósmynd/Aðsend

Félag sérkennara segir ekki rétt sem fram hafi komið á ferilskrá Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, þingmanns Miðflokksins, á vef Alþingis að hún hafi verið ritstjóri Glæða, sem er fagtímarit sérkennara.  

Yfirlýsing þessa efnis er birt á Facebook-síðu Félags sérkennara á Íslandi og segir þar að leiðréttingunni sé komið á framfæri „vegna fjölda fyrirspurna.“

„Hið rétta er að árin 2011 og 2012 átti Anna Kolbrún sæti í ritstjórn ásamt fjórum öðrum, en ritstjóri þau ár var Hermína Gunnþórsdóttir,“ segir í færslunni.

„Við skorum á Önnu Kolbrúnu að leiðrétta ferilskrá sína í takt við það sem rétt er.“

Anna Kol­brún er ein sex­menn­ing­anna sem fóru óvar­leg­um orðum um sam­starfs­fólk sitt og aðra á barn­um Klaustri. Í æviágripi hennar á vef Alþingis stóð þar til nú fyrir skemmstu að hún hafi verið ritstjóri Glæða, en ekki var tilgreint á hvaða tíma það hafi verið. Þeirri færslu hefur nú verið breytt og er hún nú sögð hafa verið í ritstjórn blaðsins.

Þá stóð einnig í æviágripinu um tíma að Anna Kolbrún væri þroskaþjálfi, en því er einnig búið að breyta. Greindi Þroskaþjálfafélag Íslands frá því í gær að það hefði fengið staðfestingu frá embætti landlæknis um að Anna Kolbrún hafi hvorki hlotið menntun sem þroskaþjálfi né fengið starfsleyfi frá embættinu.

„Við feng­um þar þær upp­lýs­ing­ar að Anna Kol­brún hefði hvorki hlotið þroskaþjálf­a­mennt­un né væri með starfs­leyfi sem slík­ur,“ sagði Lauf­ey Elísa­bet Giss­ur­ar­dótt­ir, formaður Þroskaþjálf­a­fé­lags Íslands, í samtali við mbl.is fyrr í dag. „Þetta er lög­verndað starfs­heiti og það er góð og gild ástæða fyr­ir því. Við störf­um sam­kvæmt lög­um um heil­brigðis­starfs­fólk.“

Hún seg­ir að fé­lagið sé lítið og yf­ir­leitt sé vitað um flesta þá sem út­skrif­ist með þessa mennt­un. „Það á eng­inn að geta starfað sem þroskaþjálfi ef hann er það ekki. Mér virðist að Anna Kol­brún hafi gert það, en það er al­ger­lega á ábyrgð vinnu­veit­enda að ganga úr skugga um að fólk sé með þá mennt­un sem það seg­ist hafa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert