Átta úr HÍ í hópi áhrifamestu vísindamanna

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- …
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, kemur nýr inn á listann í ár. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Átta vísindamenn sem ýmist eru prófessorar við Háskóla Íslands eða starfa í nánum tengslum við skólann eru í hópi 4.000 áhrifamestu vísindamanna heims. Þetta er niðurstaða nýs lista á vegum greiningarfyrirtækisins Clarivate Analytics sem var birtur fyrir helgi.

Íslensku vísindamönnunum í þessum hópi fjölgar um tvo á milli ára en alls hefur vísindamönnum með tengsl við íslenskar rannsóknastofnanir og -fyrirtæki á listanum fjölgað um fimm frá árinu 2017.

Samkvæmt frétt á vefsíðu Háskóla Íslands er þetta í fimmta sinn sem Clarivate Analytics birtir lista yfir áhrifamestu vísindamenn heims. Hann nær til þess eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem mest er vitnað til í vísindagreinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum.

Þar segir enn fremur að listinn byggist á gögnum úr gagnabankanum Web of Science. Horft er til tilvitnana á tilteknu árabili við matið. Listinn í ár nær til rúmlega 4.000 vísindamanna á 21 fræðasviði en þess má geta að í hópnum eru 17 Nóbelsverðlaunahafar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert