Flugrekstrarleyfi bundin skilyrði um evrópskt eignarhald

mbl.is/Eggert

Indigo Partners getur aldrei orðið meirihlutaeigandi að WOW air, að minnsta kosti ekki á meðan það er rekið á íslensku flugrekstrarleyfi. Því ráða ákvæði í reglugerð Evrópuþingsins og Evrópuráðsins „um sameiginlegar reglur um flugþjónustu í Bandalaginu“, eins og hún er nefnd.

Innan við sólarhring eftir að slitnaði upp úr viðræðum um kaup Icelandair Group á WOW air barst tilkynning um að náðst hefði samkomulag milli Skúla Mogensen, eiganda WOW air, og bandaríska fjárfestingarfélagsins Indigo Partners um að Indigo hygðist fjárfesta í félaginu. Það yrði gert að undangenginni áreiðanleikakönnun. Í tilkynningunni var sérstaklega tilgreint að Skúli Mogensen yrði áfram leiðandi hluthafi í félaginu (e. principal shareholder).

Ljóst má vera, bæði af þeim ástæðum sem gefnar voru upp fyrir viðræðuslitunum við Icelandair Group, og einnig af bréfi sem Skúli sendi þeim sem þátt tóku í skuldabréfaútboði WOW air í september, að félagið er í brýnni þörf fyrir fjármagn. Aðrar yfirlýsingar félagsins undirstrika einnig að sú þörf er yfirvofandi og að vinna þurfi hratt að því að tryggja félaginu aukið fjármagn í formi láns- eða aukins hlutafjár.

Á þessum tímapunkti liggur ekki fyrir hvort af viðskiptunum verður eða hver hlutdeild Indigo Partners verður. Hins vegar er ljóst af þeim lögum sem í gildi eru og varða flugrekstrarleyfi WOW air, að Indigo Partners getur aldrei orðið meirihlutaeigandi að félaginu, að minnsta kosti ekki á meðan það er rekið á hinu íslenska flugrekstrarleyfi.

Því ráða ákvæði í reglugerð Evrópuþingsins og Evrópuráðsins „um sameiginlegar reglur um flugþjónustu í Bandalaginu“, eins og hún er nefnd.

Í 4. gr. hennar, sem fjallar um skilyrði fyrir veitingu flugrekstrarleyfa kemur fram að „aðildarríki og/eða ríkisborgarar aðildarríkja eigi meira en 50% í fyrirtækinu og stjórni því í raun, beint eða óbeint, fyrir tilstilli eins og eða fleiri annarra fyrirtækja nema eins og kveðið er á um í samkomulagi við þriðja land sem Bandalagið er aðili að.“ Morgunblaðið leitaði upplýsinga hjá Samgöngustofu um hvort heimilt væri að víkja frá þessu skilyrði þegar kemur að útgáfu flugrekstrarleyfa til fyrirtækja sem hyggjast stunda áætlunarflug milli landa.

„Ekki er að f inna heimild í reglugerðinni til þess að víkja frá því skilyrði né fordæmi fyrir slíku hjá Samgöngustofu. Við yfirferð gagna frá umsækjanda flugrekstrarleyfis eða tilkynningu um breytt eignarhald er farið yfir öll skilyrði reglugerðarinnar, þ. á m. um eignarhald,“ segir í svari lögfræðings stofnunarinnar en fjallað er um þetta í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert