Fylgið féll eftir Klausturferð

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins.
Fylgi Miðflokksins féll um fimm prósentustig eftir að upptökur af samtali fjögurra þingmanna hans á barnum Klaustri voru gerðar opinberar, samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Greint er frá þessu á vef RÚV.
Könnunin var gerð 3. nóvember til 2. desember. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi, 24 prósent, og Samfylkingin næstmest, 19 prósent. Fylgi Miðflokksins yfir tímabilið er 12 prósent. Í síðustu viku var það 13 prósent en nú, eftir að upptökurnar af Klaustri voru birtar, er það átta prósent. Vinstri græn mælast með 11 prósent og Píratar rúm 10. Viðreisn er með tæp tíu prósent og Framsóknarflokkurinn sjö.

Flokkur fólksins mælist með sex prósenta fylgi og er ekki marktækur munur á fylgi hans síðan Klaustursmálið kom upp. 

Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar um fjögur prósentustig á milli mánaða, samkvæmt könnuninni. Rúmlega 46 prósent þeirra sem tóku afstöðu segjast styðja hana. Litlar breytingar hafa verið að fylgi flokka milli mánaða og ekki tölfræðilega marktækar.

mbl.is