Hægt að kalla saman Landsdóm

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, vísaði í lög um ráðherraábyrgð …
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, vísaði í lög um ráðherraábyrgð á þingi í dag í tengslum við embættisfærslur Gunnars Braga Sveinssonar í starfi sínu sem utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, fullyrti á Alþingi síðdegis að hægt væri að kalla saman Landsdóm vegna mögulegra brota Gunnars Braga Sveinssonar, sem gegndi embætti utanríkisráðherra árið 2014, vegna laga sem hafi verið brotin við skipan sendiherra.

Í svokölluðum Klausturupptökum má m.a. heyra Gunn­ar Braga segja að hann hafi skipað Árna Þór Sig­urðsson, fyrr­ver­andi þing­mann Vinstri grænna, sem sendi­herra á sama tíma og Geir H. Haar­de til að draga at­hygl­ina frá skip­un Geirs, skömmu eft­ir efna­hags­hrunið. Þannig ætti hann inni greiða hjá Sjálf­stæðis­flokkn­um.

„Því hefur verið haldið fram að fyrningarákvæði laga um ráðherrábyrgð geri það að verkum að lítill tími er fyrir nýtt þing að afloknum kosningum hvort ákveða skuli að kalla til Landsdóm,“ sagði Björn Leví í sérstakri umræðu um ráðherraábyrgð og Landsdóm sem fór fram á Alþingi síðdegis.

Þar vísaði hann í 14. grein laga um ráðherraábyrgð þar sem segir meðal annars að málshöfðun eftir lögunum geti eigi átt sér stað, ef 3 ár líða frá því, er brot var framið, án þess að Alþingi hafi samþykkt ályktun um málshöfðunina. Sök fyrnist þó aldrei fyrr en 6 mánuðir eru liðnir frá því, að næstu reglulegu alþingiskosningar, eftir að brot var framið, fóru fram.

Ekki reglulegar kosningar frá 2013

Björn Leví benti á þessu samhengi að á Íslandi hafa ekki farið fram reglulegar Alþingiskosningar frá árinu 2013. „Það gerir það að verkum að embættisfærslur Gunnars Braga Sveinssonar sem utanríkisráðherra árið 2014 sem hafa verið til umfjöllunar undanfarna viku eru ekki enn fyrndar,“ sagði þingmaðurinn. Þá spurði hann hvort ekki væri þörf á að halda áfram umræðu um Landsdóm á öðrum vettvangi. „Verðum við ekki þrátt fyrir allt að nota þau lög sem til okkur standa?“

Björn Leví hóf umræðuna og til andsvara var forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir og sagðist hún ekki vera sammála Birni Leví að það tækifæri felist í því að virkja Landsdóm og senda mál ráðherra, líkt og Gunnars Braga, í þann farveg.

Landsdómur ekki heppilegt fyrirkomulag að mati Katrínar

„Það er mín niðurstaða eftir að hafa verið hér á þingi þegar Landsómur var kallaður saman, að þetta sé ekki heppilegt fyrirkomulag. Þó að lögin hafi staðist og eru enn í fullu gildi, er þetta ekki heppilegasta aðferðin við það að þingið geti sinnt aðhaldshlutverki sínu og að það sé hægt að taka á því að ráðherrar gerist brotlegir um lög,“ sagði Katrín.

Hún sagði jafnframt að lög um ráðherraábyrgð séu komin til ára sinna og telur hún fulla ástæðu til að ræða breytingar bæði á stjórnarskrá og lögum um ráðherraábyrgð.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir lög um ráðherraábyrgð vera komin til …
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir lög um ráðherraábyrgð vera komin til ára sinna. mbl.is/Eggert
mbl.is